Kosið um örlög Gunnars Smára
Deilurnar innan Sósíalistaflokksins snúast um fjárframlög og húsnæðismál. Ný framkvæmdastjórn flokksins hefur kært starfandi gjaldkera og formann Vorstjörnunnar.
Það er næsta hlálegt að allt logi í Sósíalistaflokki Íslands vegna átaka um aðgang að ríkisfé. Flokkurinn vill að allt í landinu ráðist af því hve miklu opinberu fé sé varið til einstaklinga og verkefna. Stjórnmálastefna flokksins er reist á nauðsyn þess að ríkið taki eins mikið og unnt er af öllum þegnum sínum og ráðstafi því aftur að geðþótta valdamanna.
Gunnar Smári Egilsson, frumkvöðull Sósíalistaflokksins, sagði 2014: „Fylkisflokkurinn vinnur að endursameiningu Íslands og Noregs með því að Ísland verði 20. fylki Noregs og íslenska verði eitt af ríkismálum Noregs …”
Af þessari hugsjón spratt Sósíalistaflokkurinn 2017 vegna þess að illu heilli var ákveðið að skattgreiðendur kostuðu starfsemi stjórnmálaflokkanna. Sú ákvörðun réð sjónarmiðum jafnaðarstefnu og sósíalisma og út á það ákvað Gunnar Smári Egilsson að gera þegar hann ákvað að breyta fylkishreyfingu sinni um að Ísland yrði 20. fylki Noregs í Sósíalistaflokk Íslands.
Skjáskot af ruv.is
Þótt Sósíalistaflokkurinn hafi ekki fengið nægilega mörg atkvæði í kosningum til að koma manni á þing hefur hann fengið 2,5% atkvæða og meira og þar með rétt til ríkisfjár. Svo virðist af fréttum sem flokksstofnandinn hafi talið sig eiga rétt á að nýta þetta fé eins og honum hentaði og stofnaði hann félög í kringum sig til að ná því markmiði sínu.
Deilurnar innan Sósíalistaflokksins snúast um fjárframlög og húsnæðismál. Ný framkvæmdastjórn flokksins hefur kært starfandi gjaldkera og formann Vorstjörnunnar til lögreglu, auk gjaldkera kosningastjórnar flokksins. Leiguhúsnæði flokksins er skrifað á styrktarsjóðinn Vorstjörnu, sem er nátengdur Sósíalistaflokknum, en ekki flokkinn sjálfan.
Hér verða þessar deilur ekki raktar. Þeir sem fylgst hafa með ferli Gunnars Smára áratugum saman biðu eftir að fréttir bærust af uppgjöri af einhverjum toga vegna þessara umsvifa hans. Þessi uppgjör verða jafnan fréttaefni.
Nú segja einhverjir Gunnar Smára mann sannleikans og taka þar með undir með honum að allir séu lygarar sem bera hann sökum.
Nú er það Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, sem gengur fram fyrir skjöldu Gunnari Smára til varnar.
Í dag, mánudaginn 30. júní er aðalfundur Vorstjörnunnar og hvetur Gunnar Smári á Facebook í dag, nokkrum klukkustundum fyrir fundinn, alla sem vettlingi geta valdið að ganga í Vorstjörnuna og aðstoða Sönnu og félaga hennar við að verja Vorstjörnuna og þá hugsjón sem hún byggir á.
Gunnar Smári segist „ekki í kjöri til stjórnar“ hann ætli þó að sitja fundinn og verjast yfirtöku óvina sinna á Vorstjörnunni. Hann hafi hag af niðurstöðunni því að sjónvarpsstöðin Samstöðin leigi af Vorstjörnunni og nái óvinir hans félaginu verði Samstöðinni lokað í kvöld.
Það er því kosið um völd í Vorstjörnunni, framtíð Sönnu Magdalenu og húsaleigu Samstöðvarinnar á fundi í Bolholti síðdegis í dag. Er fundurinn löglegur eða verður hann kærður til lögreglu?