Kolefnisbinding beitilands eða skóga
Auknar kröfur um að beit sé bönnuð og um vaxandi skógrækt fela í sér hættu fyrir opna ásýnd landsins. Sérstaða þessarar opnu ásýndar Íslands kann að hverfa.
Í ríkisútvarpinu birtist sunnudaginn 2. febrúar frétt um kolefnisbindingu jarðar sem óhjákvæmilegt er að ræða til hlítar áður en lengra er haldið hér í skógrækt í því skyni að binda kolvetni.
Í fréttinni sagði frá því að Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor í landnýtingu, hefði ásamt fleiri vísindamönnum unnið að verkefninu ExGraze þar sem skoðuð hefðu verið 32 svæði um landið sem höfðu verið friðuð í mislangan tíma, frá 20 árum og upp í 80 ár. Til samanburðar voru beitilönd við hlið friðaða landsins einnig rannsökuð. Verkefnið hlaut meðal annars styrk frá Rannís árið 2021.
Anna Guðrún sagði að í raun væri mjög mikill munur á kolefnisupptöku í beittu landi og því sem hefði verið friðað. Það væri miklu minni uppsöfnun kolefnis á sinu og mosa á friðuðu landi en í beitilandi auk þess sem friðaða landið væri kaldara og þurrara. Í Skotlandi kom til dæmis fram að 33% minni kolefnisbinding varð í jörð sem friðuð hafði verið í 70 ár frá því þegar þar var graslendi. Á ruv.is segir Anna Guðrún:
„Við getum séð í hendi okkar hvað er að gerast í fyrsta lagi með þessa friðun og síðan plöntun, að við erum ekki að binda kolefni heldur erum við að tapa kolefninu sem er í jarðveginum við það að planta trjánum. Trjáplönturnar vinna sig upp á kolefninu sem graslendið hefur þegar bundið og jarðvegurinn er að minnka og kolefnið færist upp í stofninn.“
Prófessorinn segir að huga verði að þessu þegar milljörðum sé varið í skógrækt hér án þess að um ávinning við loftslagsbreytingar sé að ræða. Fjölmargar rannsóknarniðurstöður sýni að skógar á norðurslóðum séu hættir að binda kolefni. Enginn hafi sýn yfir hve mikið sé búið að planta af skógi hér á landi. Góðar bújarðir hér, tugir jarða, hafi verið seldar til þess að planta skógi í ræktað land.
Hér er hreyft máli sem legið hefur of lengi í þagnargildi á opinberum vettvangi.
Brýnt er að gerðar verði mælingar á áhrifum beitar á uppskeru beitilands og þar með kolefnisuppsöfnunar og magni kolefnis í afurðum þess.
Með úthagabeit sauðfjár er unnt að breyta gróðri í verðmæta afurð án þess að nota áburð eða olíu til fóðurframleiðslunnar. Hagkvæmni þess að nýta úthaga við framleiðslu lambakjöts samanborið við áborið land, svo ekki sé minnst á heygjöf, þarf að kanna. Slíkar rannsóknir eru best unnar í náinni samvinnu við bændur. Kjörið er að virkja bændur til þátttöku í verkefni af þessu tagi. Með því fengist mikilvæg vitneskja um kolefnisspor sauðkindarinnar, en eftir því hefur verið kallað.
Auknar kröfur um að beit sé bönnuð og um vaxandi skógrækt fela í sér hættu fyrir opna ásýnd landsins. Sérstaða þessarar opnu ásýndar Íslands kann að hverfa og þá yrði æ erfiðara að átta sig á hvort farið sé um Ísland en ekki t.d. Noreg eða Kanada. Mikilvægi hefðbundinnar opinnar ásýndar landsins fyrir ferðaþjónustuna hefur ekki verið metið.
Rannsaka verður til hlítar gildi þess að varðveita íslenskt landslag og styrkja þannig grunn skipulagsákvarðana sem sporna gegn þróun sem breytir ásýnd Íslands og stuðla að skynsamlegri landnýtingu.