Kolbrún vill sama borgarstjórabíóið
Kolbrún Bergþórsdóttir vill að borgarstjórabíóið haldi áfram af því að Dagur B. sé „eins og fæddur í embættið“ og best sé að sætta sig við hann áfram „þótt hann hafi reyndar setið lengi“.
Dýrðaróður Kolbrúnar Bergþórsdóttur, menningarritstjóra Fréttablaðsins, um Dag B. Eggertsson borgarstjóra tekur á sig ýmsar myndir í aðdraganda kosninganna 14. maí. Í leiðara blaðsins í dag (1.apríl) segir hún:
„Það sem skekkir þá mynd [að gaman væri að fá konu sem borgarstjóra] er að núverandi borgarstjóri er eins og fæddur í embættið og hefur auk þess yfir sér einhvers konar siguráru. Það er engin sérstök ástæða til að hafna honum, þótt hann hafi reyndar setið ansi lengi.“
Það væri forvitnilegt fyrir lesendur Kolbrúnar að vita hvaða fundi hún sækir til að afla sér vitneskju um aðdáun kjósenda á Degi B. Hún hefði til dæmis átt að vera á fundi sem hann hélt með íbúum á Kjalarnesi að kvöldi 31. mars. Stutt frétt er um fundinn á mbl.is og segir blaðamaðurinn að fundarmönnum hafi verið „heitt í hamsi“ þegar þeir fengu tækifæri til að eiga orðastað við borgarstjórann. Í fréttinni er vitnað í Kristin Gylfa Jónsson, íbúa á Kjalarnesi, sem sagði að nú í dag 1. apríl væru rétt fimm ár síðan borgarstjórinn kom síðast á Kjalarnes og sagði: „Í haust byrjum við á hverfaskipulaginu.“
Þá sagði Kristinn Gylfi við borgarstjóra:
„Það eru fimm ár. Það sama og þú ert að segja núna. Þú ert líka að segja það sama og fyrir fimm árum og fyrir tíu árum um þessar tíu lóðir í útjaðri Esjugrundar sem er núna verið að fara fornleifauppgröft í núna í vor. Hvers konar bíó er þetta?“
Er nema von að spurt sé? Þetta er ekki í
fyrsta sinn sem sagt er frá opinberum fundum borgarstjórans í hverfum
borgarinnar nú fyrir kosningarnar þar sem hann dustar rykið af gömlum kosningaloforðum
og talar um þau eins og um nýmæli sé að ræða.
Þetta skjáskot birtist á mbl.is og sýnir borgarstjóra hlusta á ræðu Kristins Gylfa Jónssonar á fundi á Kjalarnesi 31. mars 2022.
Það má fara 20 ár til baka og rifja upp það sem hann sagði þá um væntanlega Sundabraut og hve skipulega yrði staðið að öllu varðandi hana. Síðan hafa engar ákvarðanir verið teknar. Í vörn fyrir aðgerðarleysi sitt grípur borgarstjórinn til þess ráðs að segja að hann sakni „símapeninganna“, án þeirra hefði ekkert verið unnt að gera!
Kolbrún Bergþórsdóttir vill að borgarstjórabíóið haldi áfram af því að Dagur B. sé „eins og fæddur í embættið“ og best sé að sætta sig við hann áfram „þótt hann hafi reyndar setið lengi“.
Á fundinum á Kjalarnesi áréttuðu fundarmenn gagnrýni sína á skotæfingarsvæði í Kollafirði. Ania Karlsdóttir, íbúi í Kollafirði, sagði hávaðann nærri skotsvæðinu hafa mælst um 100 desíbil, en ekki á milli 50 og 60 desíbil líkt og borgaryfirvöld hefðu haldið fram. „Þetta er eins og loftbor eða vélsög alla daga við húsið þitt,“ sagði Ania. Afhenti hún þá Degi B. undirskriftalista með nöfnum íbúa þar sem kallað er eftir að skotsvæðinu verði lokað. Borgarstjóri fór undan í flæmingi vegna þessarar gagnrýni og segir í frétt mbl.is að hann hafi „svarað því að mál skotsvæðisins væri í hnút“.
Leiðari Kolbrúnar um ágæti Dags B. er ekki aprílgabb, óþarft er að hlaupa eitthvað til átta sig á að um gamaldags pólitískan áróður er að ræða. Þótt Dagur B. standi undir regnboga Kolbrúnar dugar honum skammt að flagga gömlu, óefndu kosningaloforðunum enn og aftur.