Kolbrún hittir í mark
Sé þessi lýsing færð á knattspyrnumál felur hún í sér að flokkarnir sem Kolbrún hefur í huga eiga einfaldlega ekkert erindi inn á völl stjórnmálanna.
Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar oft skynsamlega leiðara í Fréttablaðið. Það er helst þegar hún tekur sér fyrir hendur að verja Dag B. Eggertsson borgarstjóra og meirihluta hans sem henni verður hált á svellinu. Sérstaklega þó þegar hún reynir að sannfæra lesendur sína um að aukið líf hafi færst í miðborgina með því að beina öðrum en ferðamönnum úr henni.
Í dag (8. september) skrifar Kolbrún tvískiptan leiðara en þeim fjölgaði eftir að Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar, varð ritstjóri Fréttablaðsins í aðdraganda þingkosninganna.
Fyrri leiðarinn ber fyrirsögnina: Útskúfun.
Kolbrún ræðir þar mál málanna, ásakanir um kynferðislega áreitni í íslenska knattspyrnuheiminum. Hún segir að í „miklum dómsdagshávaða“ þar sem alls kyns fullyrðingum og ásökunum sé hreyft hafi stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) ekki „haldið haus“, hún hafi ekki þolað álagið og sagt af sér á einu bretti. „Stjórnin hefði sýnt meiri manndóm með því að standa í lappirnar fremur en að lúffa fyrir múgæsingi,“ segir Kolbrún.
Henni finnst þetta mál allt „dæmi um það þegar farið er algjörlega offari“. Fullyrðingum og ásökunum sé kastað fram en málið ekki rannsakað ofan í kjölinn vegna þess að „margir fara á taugum“. Henni er nóg boðið og segir í lok fyrsta kafla leiðarans:
„Yfirvegun og skynsemi fýkur út í veður og vind. Það er ekki nema von að mörgum ofbjóði, þótt fáir þori að opinbera það af ótta við fordæmingu.“
Af því sem fram hefur komið í þessu hitamáli má ráða að ekki séu öll kurl enn komin til grafar en Kolbrún Bergþórsdóttir sýnir hugrekki með að kasta sér inn í deiluna um hvort staðið hafi verið fast í ístaðinu eða ekki.
Síðari leiðarinn ber fyrirsögnina: Útilokun
Þar segir Kolbrún að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafi tekist að „leiða ólík öfl saman í ríkisstjórn“, það er VG, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Stjórnin hafi staðið sig „bærilega“ segir í leiðarabútnum og er það orð örugglega fleinn í holdi innvígðra í Samfylkingunni og einnig það mat Kolbrúnar að núverandi ríkisstjórnarsamstarf hafi verið „það skynsamlegasta í stöðunni á sínum tíma“, það er eftir kosningar haustið 2017. Þá segir orðrétt:
„Nú keppast ýmsir flokkar við að hafna ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir flokkar eiga það sameiginlegt að vera engir þungavigtarflokkar og þar er því engin innistæðu fyrir því að útiloka aðra. Þessir flokkar mega þakka fyrir ef einhver nennir að vinna með þeim eftir kosningar.“
Sé þessi lýsing færð á knattspyrnumál felur hún í sér að flokkarnir sem Kolbrún hefur í huga eiga einfaldlega ekkert erindi inn á völl stjórnmálanna. Þeir útiloki sig frá þátttöku í leiknum og séu best geymdir utan vallar. Þetta má til sanns vegar færa.
Flokkarnir sem þarna um ræðir eru að minnsta kosti þrír: Samfylkingin, Píratar og Sósíalistaflokkurinn. Spurning er um Flokk fólksins og jaðarflokkinn Viðreisn.