15.1.2025 11:42

Kokhraustur sendiherra Kína

Kínverski sendiherrann sér nú tækifæri til áhrifa á Samfylkingarstjórnina. Drýgindalegur tónninn og hálfsannleikurinn í viðtalinu við Morgunblaðið bendir til þess.

Forseti Kína, Xi Jinping, hefur boðað að árið 2049, þegar 100 ár verða liðin frá valdatöku kínverska kommúnistaflokksins, skuli heimsforysta Kína tryggð á öllum sviðum. Virðast eins konar heimsyfirráð Kína draumurinn.

Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sagði réttlega í samtali við Morgunblaðið laugardaginn 11. janúar: „Ráðamenn í Kína vilja að Kína verði hið ráðandi heimsveldi.“ Má því til staðfestingar nefna áhersluna sem Xi leggur á hervæðingu Kína og áhuga hans á að endurskapa alþjóðastofnanir og stjórnkerfi til að auka kínversk áhrif og endurspegla kínverska hagsmuni og gildi.

Screenshot-2025-01-15-at-11.41.08

Af viðtali í dag (15. janúar) við He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, má ráða að hann hafi kvartað undan orðum bandaríska sendiherrans við ritstjórn Morgunblaðsins. Í stað þess að sendiherrann geri athugasemd í grein er rætt við hann, sendimann alræðisríkis sem bannar frjálsa fjölmiðla.

Sendiherrann talar af yfirlæti um bandaríska sendiherrann: „Við tókum eftir þessu.“ (!) segir hann í fullri vinsemd um Carrin F. Patman en segir hana misskilja Xi Jinping. Fyrir forsetanum vaki aðeins „að tryggja að lífsskilyrði fólks séu betri í dag en þau voru í gær“.

Annað í samtali blaðamannsins við sendiherrann er í þessum dúr. Segir hann þá sem bendi á útþenslustefnu Kínverja ekki skilja hvað fyrir Kínastjórn vaki. Það kunni að „vera þeim hulið sem sjá heiminn og metnað Kína með vissum gleraugum“.

Blaðamaðurinn kastar upp boltanum fyrir sendiherrann og spyr hvort stjórnvöld í Kína hafi „orðið vör við viðleitni Bandaríkjastjórnar til að þrýsta á Ísland að eiga ekki í samstarfi við Kína“. Spurningin er einkennileg í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa á vettvangi NATO og annars staðar staðið að ályktunum þar sem varað er við því að nýta til dæmis kínverska fjarskiptatækni.

Af umburðarlyndi telur kínverski sendiherrann sig „ekki í stöðu til að tjá sig um hvort bandarísk stjórnvöld beiti Ísland þrýstingi“. Hann segir hins vegar að „sú skuldbinding“ Kínverja hafi staðið lengi að þeir þvingi „ekki ríki, þ.m.t. smáríki, til að taka afstöðu“.

Það verður í minnum haft að hvorki Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands né Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sáu ástæðu til að hitta Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta, þegar hann kom hingað í byrjun júní 2009. Þau vildu ekki styggja Kínastjórn og óttuðust refsiaðgerðir af þeirra hálfu.

Nú hentar sendiherra Kína að segja: „Við virðum íslensku þjóðina og vonum að Ísland geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir sem sjálfstætt ríki.“

Ég minnist þess þegar forveri hans stóð öskrandi af bræði í anddyri menntamálaráðuneytisins til að mótmæla því að ég hitti sem menntamálaráðherra sendinefnd frá Tævan. Annarri eins framkomu sendiherra hef ég aldrei kynnst. Hún einkenndist ekki af virðingu fyrir sjálfstæðri ákvörðun íslensks stjórnvalds.

Í tíð ríkisstjórnarinnar undir forsæti Samfylkingarinnar 2009-2013 var lagður grunnur að rannsóknarsetrinu á Kárhóli sem Kínverjar geta notað í hernaðarlegum tilgangi. Kínverski sendiherrann sér nú tækifæri til áhrifa á Samfylkingarstjórnina. Drýgindalegur tónninn og hálfsannleikurinn í viðtalinu við Morgunblaðið bendir til þess.