26.7.2017 20:40

Knud Zimsen ekki lengur fyrirmynd borgarstjóra

Ímyndið ykkur hve mikið bil er á milli borgarstjórans Knuds Ziemsens og afskipta hans af gangi mála í borginni og þess að Dagur B. Eggertsson segist ekki hafa vitað um mengunarslysið, hann hafi verið í fríi

Eitt af því einkennilega sem kemur fram núna allt í einu er gagnrýní úr öllum áttum á stjórnarhætti í Reykjavíkurborg og sérstaklega á Dag B. Eggertsson borgarstjóra.

Við hefur blasað allt frá því að Jón Gnarr varð borgarstjóri að hallaði undan fæti við stjórn borgarinnar. Hann komst upp með hluti sem engum öðrum í þessu embætti hefði liðist. Spurning er hvenær það rennur upp fyrir fólki að kenningin um að allt mætti gera af því að „það var hrun“ er ekki síður skaðvænleg en hrunið sjálft.

Skolp- og mengunarslysið mikla hefur opnað augu margra fyrir stjórnleysinu í Reykjavíkurborg.

Í bókinni Reykjavík sögustaður við sund segir Páll Líndal:

„Skemmtiferðaskip komu sem oftar til Reykjavíkur sumarið 1925. Umferð stórjókst svo að til vandræða horfði. Þá var Knud Zimsen borgarstjóri og sá að við svo búið mátti ekki standa.“ 

Loftur Guðmundsson tók þessa mynd af borgarstjóranum að stjórna umferðinni á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis:

Ímyndið ykkur hve mikið bil er á milli borgarstjórans Knuds Zimsens og afskipta hans af gangi mála í borginni og þess að Dagur B. Eggertsson segist ekki hafa vitað um mengunarslysið, hann hafi verið í fríi!

Þegar lögreglustjórinn í Minneapolis sagðist hafa verið í fríi og þes vegna stikkfrí þegar lögreglumaður skaut til bana konu sem hringdi í neyðarnúmerið 911 og bað um aðstoð lá ljóst fyrir að lögreglustjórinn yrði að segja af sér sem gerðist.

Fram að því að Jón Gnarr varð borgarstjóri tóku borgarstjórar í Reykjavík Knud Ziemsen sér til fyrirmyndar – þeir reyndu að vera allt í öllu, þjóna borgarbúum.

Annað er upp á teningnum núna og afskiptaleysið og upphafningin hefur breiðst út um borgarkerfið eins og birtist í frásögnum verktaka af samskiptum þeirra við borgaryfirvöldin.