25.3.2018 12:08

Klukkubreyting ekki að skapi Frakka

Birtist grein um breytingu á klukkunni í franska blaðinu Le Monde. Þar segir að Frakkar séu andvígir breytingunni. Þeir gefi lítið fyrir þau rök að hún leiði til orkusparnaðar.

Klukkunni var flýtt um eina klukkustund innan Evrópusambandsins og víðar í nótt. Af því tilefni birtist grein um breytingu á klukkunni í franska blaðinu Le Monde. Þar segir að Frakkar séu andvígir breytingunni. Þeir gefi lítið fyrir þau rök að hún leiði til orkusparnaðar.

Í október 2015 birti fyrirtækið OpinionWay pour Comprendre Choisir niðurstöðu könnunar sem sýndi að 54% Frakka voru andvígir breytingu á klukkunni, 19% hlynntir henni og 27% létu sér standa á sama um málið. Alls þótti 59% engu skipta hvort yrði einhver orkusparnaður, 75% töldu hins vegar að breytingin hefði neikvæð áhrif á svefn, matarvenjur og lundarfar.

Birtar eru niðurstöður útreikninga sem sýna að heimilin greiða að meðaltali dálítið meira fyrir rafmagn á morgnana en minna á kvöldin. Sagt er að með einni nýrri birtustund megi spara um 10 cent af evru, rúmlega 10 krónur. Safnast þegar saman kemur og segir í Le Monde að á árinu 2009 hafi meðalnotkun rafmagns um kl. 19.00 dregist saman um 3,5 gígawött (GW). Orkusparnaður það ár hafi verið um 440 gígawattsstundir, einkum með vísan til lýsingar í þágu almennings (götulýsingar o.fl.) – það svari til árlegrar slíkrar lýsingar í borg með um 800.000 íbúa, til dæmis Marseille.

70acd00_f389868b062544c5adef0da95486f362-f389868b062544c5adef0da95486f362-0Vísað er til sænskrar rannsóknar sem sagt var frá árið 2008 í New England Journal of Medicine sem reist er á tölfræði frá árunum 1987 til 2006 sem sýni „merkjanlega tölfræðilega aukningu á hættu á hjartaáfalli“ í vikunni eftir að klukkunni er breytt, einkum þegar tekinn er upp sumartími.

Áhrifin af breytingunni á klukkunni hafa verið rannsökuð á vegum öldungadeildar franska þingsins og skýrslur samdar fyrir framkvæmdastjórn ESB. Árið 1998 var ákveðið að í öllum aðildarríkjum ESB skyldi klukkunni breytt á sama tíma til að auðvelda samskipti þjóðanna.

Í Le Monde er bent á að það sé misskilningur að Frakkar hafi fyrst tekið upp sumartíma árið 1976. Árið 1923 hafi verið lögfest að færa skyldi klukkuna fram um 60 mínútur frá síðasta laugardegi í mars til fyrsta sunnudags í október. Þá gilti Greenwich meðaltími (GMT) í Frakklandi en í Þýskalandi var klukkan einum tíma á undan franska tímanum. Þjóðverjar innleiddu „sinn“ tíma í Frakklandi eftir að þeir hernámu það árið 1940.

Eftir að Frakkland var frelsað undan nasistum var ætlunin að snúa aftur til GMT en frá því var horfið og varð sumartími Frakka til 1939 (GMT+1) varanlegur tími landsmanna. Valéry Giscard d’Estaing Frakklandsforseti ákvað árið 1976 að Frakkar skyldu taka upp nýja siðu og breyta klukku sinni tvisvar á ári með vísan til orkusparnaðar og orkukreppunnar sem þá ríkti.

Kortið er af vísindavef HÍ.

Á vísindavef Háskóla Íslands segir Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir:

„Árið 1907 voru sett lög um samræmdan tíma á Íslandi þannig að alls staðar á landinu skyldu klukkur fylgja tíma sem var einni klukkustund á eftir Greenwich-tíma. Áður hafði þetta verið nokkuð breytilegt þannig að klukkan á Akureyri var til dæmis ekki nákvæmlega það sama og klukkan í Reykjavík.

Árið 1917 voru sett lög sem heimiluðu að klukkunni væri flýtt um allt að einn og hálfan tíma frá því sem ákveðið var árið 1907. Þessari heimild var beitt á árunum 1917-1921 þegar klukkunni var flýtt um eina klukkustund yfir sumarið og var tíminn á Íslandi þá sami og Greenwich-tími. Á árunum 1922-1938 var klukkunni hins vegar ekki breytt heldur gilti sami tími á Íslandi allt árið um kring.

Sá siður að flýta klukkunni um eina klukkustund yfir sumarið var aftur tekinn upp árið 1939 og var það gert á hverju ári í tæpa þrjá áratugi. Íslendingar skiptu síðast á milli vetrar- og sumartíma árið 1968 en það ár tóku gildi lög sem kváðu á um að sumartíminn, það er Greenwich-tíminn, skyldi vera staðaltími á Íslandi. Síðan þá hefur sami tími gilt allt árið um kring hér á landi.“