22.12.2022 11:39

Klúður vegna hríðarhvells

Vandinn í Reykjavík er eitt. Hitt er ekki síður alvarlegt að við blasir að þeir sem bera ábyrgð á greiðri umferð um Reykjanesbraut reyndust ekki heldur starfi sínu vaxnir þegar á reyndi vegna hríðarinnar.

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 20. desember var haft eftir starfandi borgarstjóra, framsóknarmanninum Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, að „ágætlega hafi tekist til með viðbrögð við erfiðar aðstæður“ þegar rætt var við hann um snjómokstur í Reykjavík eftir hvellinn sem varð aðfaranótt laugardags 17. desember.

Í Kastljósi sjónvarpsins miðvikudaginn 21. desember birtist sami Einar Þorsteinsson og sagðist hafa sagt undanfarna daga að viðbragð borgarinnar við hríðinni hefði ekki verið nægilega gott!

Annaðhvort man Einar ekki hvað hann segir frá degi til dags eða rangt var eftir honum haft í Fréttablaðinu.

640839Bergsteinn Sigurðsson, umsjónarmaður Kastljóss, vitnaði í þessa frétt Fréttablaðsins, ekki til að benda Einari á tvöfeldnina í málflutningi hans, heldur vegna þess að þar var gefið til kynna að vandann hjá borginni mætti rekja til fákeppni meðal verktaka. Féll sú kenning að skoðun Bergsteins sem sagði:

„Hér hefur verið vissulega vinstri meirihluti að mestu leyti alla þessa öld en erum við ekki að súpa seyðið samt af ákveðinni hægri hugmyndafræði sem er á þá vegu að borgin, hið opinbera, megi ekki eiga neitt, tækin séu bara í eigu borgarinnar sem ræsir þau svo út þegar þarf.“

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hló einfaldlega að þessu tali Bergsteins um „hægri hugmyndafræði“, þetta snerist ekki um eign á tækjum heldur um skjót og skipuleg viðbrögð í samræmi við aðstæður, tækin skorti ekki og ekki heldur mannafla sem kynni að nota þau, það þyrfti hins vegar skjótar og markvissar ákvarðanir til virkja tækin í þágu borgarbúa. Þrátt fyrir sambærileg vandræði vegna veðurs í febrúar á þessu ári hefðu stjórnendur borgarinnar ekkert lært.

Að þáttarstjórnandi Kastljóss setji sig enn og aftur í hlægilegar pólitískar stellingar til að vega að stjórnmálaskoðunum á misheppnuðum forsendum er í ætt við klúðrið hjá meirihlutanum í borgarstjórn. Minna má á að vinstri menn hafa stjórnað borginni meira og minna frá árinu 1994, samt þykir boðlegt að bjóða upp á það í Kastljósi að þeir ráði ekki við að hreinsa snjó af götum borgarinnar vegna „hægri hugmyndafræði“. Hvílík firra!

Einar Þorsteinsson vill að vísu að borgin kaupi bíla sem geti borið tönn til að ryðja snjó af skólalóðum og úr húsagötum. Hvort þetta eigi að taka alvarlega eða aðeins líta á sem friðmæli gagnvart samstarfsfólkinu í Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum skal ósagt látið. Líklega er þetta bara sýndarmennska.

Vandinn í Reykjavík er eitt. Hitt er ekki síður alvarlegt að við blasir að þeir sem bera ábyrgð á greiðri umferð um Reykjanesbraut reyndust ekki heldur starfi sínu vaxnir þegar á reyndi vegna hríðarinnar. Ferðalög tug þúsunda manna röskuðust fyrir tjón flugfélaga og skaðað orðspor þeirra eða ferðamannalandsins Íslands. Einkennist sú atburðarás öll af fúski og fyrirhyggjuleysi. Skýringar upplýsingafulltrúa vegagerðarinnar eru ófullnægjandi. Af hálfu innviðaráðuneytis dugar ekki frekar en hjá meirihluta borgarstjórnar að setja málið í nefnd.