3.12.2019 9:59

Klúður á klúður ofan hjá RÚV

Hafi þetta allt verið gert svona vitleysislega að ráði Capacent má spyrja hvernig unnt sé að treysta ráðum fyrirtækisins þegar loks kemur að því að velja nýjan útvarpsstjóra.

Umsóknarfrestur um starf útvarpsstjóra var lengdur um eina viku mánudaginn 2. desember. Nú gefst tími til 9. desember til að sækja um starfið. Kári Jónasson, stjórnarformaður ríkisútvarpsins (RÚV), segir að ráðgjafar- og ráðningarfyrirtækið Capacent hafi lagt til að fresturinn yrði lengdur vegna tímaskorts hugsanlegra umsækjenda.

Áður ráðlagði Capacent stjórninni að setja þá reglu í þessu tilviki að ekki yrðu birt nöfn umsækjenda. Það kynni að þrengja hóp þeirra sem sæktu.

Óvenjulegt er að hugsanlegum umsækjendum um opinbert starf sé sýnd sú umhyggja sem gert er vegna ráðningar útvarpsstjórans að þessu sinni.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ritaði 28. nóvember bréf til stjórnar RÚV til að forvitnast um hvers vegna ætti ekki að birta lista með nöfnum umsækjenda um útvarpsstjórastarfið.

MiyMK1STKG2v_750x500_kuqwX0CyÍ samtali við Morgunblaðið í dag (3. desember) segir Kári Jónasson að stjórn RÚV bíði eftir niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um hvort stjórninni sé skylt að birta nöfn umsækjenda um starfið eða ekki.

Í Fréttablaðinu í dag segir:

„Í gærmorgun mátti finna klausu á vef RÚV þar sem var sérstaklega tekið fram að RÚV væri skylt á grundvelli upplýsingalaga að birta nöfn þeirra umsækjenda sem sækja um auglýst störf. Sú klausa var fjarlægð af vefnum eftir hádegi. Ekki höfðu borist svör frá RÚV þegar blaðið fór í prentun.“

Jafnan þegar sótt er að RÚV flaggar fréttastofan með niðurstöðum kannana sem eiga að sýna að hún njóti mesta traustsins af fréttmiðlum í landinu. Þær niðurstöður og þögn fréttastofunnar um klúðrið við ráðningu nýs útvarpsstjóra duga ekki sem mótvægi fyrir RÚV vegna þess sem nú liggur fyrir.

Hafi þetta allt verið gert svona vitleysislega að ráði Capacent má spyrja hvernig unnt sé að treysta ráðum fyrirtækisins þegar loks kemur að því að velja nýjan útvarpsstjóra.

Ekki er nóg með þetta klúður. Stjórn RÚV hefur ekki tekist að bregðast á trúverðugan hátt við niðurstöðu ríkisendurskoðunar um að RÚV fari ekki að lögum.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir:

„Fyrir viku sendi Fréttablaðið ráðuneytinu fyrirspurn [um] hvort það sé rétt að ráðuneytið hafi ráðlagt RÚV að fara ekki að lögum. Fyrir helgi gaf ráðuneytið til kynna að svar væri væntanlegt, en það hefur ekki borist.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er málið viðkvæmt innan veggja ráðuneytisins. Er þá um að ræða hóp embættismanna sem hefur mikinn vilja til að ganga erinda RÚV fram yfir ráðuneytið og aðrar stofnanir.“

Hvað í lokaorðunum felst er óljóst en þau má skilja á þann veg að ráðuneytismenn telji RÚV ekki þurfa að fara að ákvæðum laga um að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur sinn. Lögin eru í gildi og RÚV brýtur þau. Ætla ráðuneytismenn ekki að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart RÚV?

Nýjustu vandræði RÚV verða á mjög erfiðum tíma fyrir mennta- og menningarmálaráðherra sem berst fyrir framgangi fjölmiðlafrumvarps til að styrkja fjárhagslegan grundvöll einkarekinna miðla. Málefni RÚV tengjast að sjálfsögðu því máli enda er yfirgangur þess og krafa um sérréttindi meginvandamál íslensks fjölmiðlamarkaðar – 5.000 milljóna framlag skattgreiðenda ár hvert til RÚV dugar ekki til að standa undir rekstrinum! Í umræðum um einkareknu miðlanna er nefnt að hármarksstuðningur við einstaka í hópi þeirra verði 50 m. kr.