29.11.2023 9:40

Klíkustjórn húsnæðismála

Í tíð Dags B. sem borgarstjóra hefur þróast lokað klíkukerfi við úthlutun lóða í Reykjavík. Eins og orð Kristins Þórs sýna býr vinstri hugsjónin um að enginn megi græða að baki. 

Undrun Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, var mikil yfir að þrátt fyrir setu sína í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur hefði stórum hluta íbúða í nýju húsi við Bríetartún verið breytt í gistileyfísbúðir án vitundar hans og vilja. Honum hentaði að láta eins og greiðinn við byggingarverktakann kæmi sér á óvart.

Í ViðskiptaMogganum í dag er samtal við Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóra Snorrahúsa, sem reist hefur hús við Snorrabraut 62 í Reykjavík. Þar eru nú til sölu 26 íbúðir í 35 íbúða húsi. Það dróst að hefja sölu íbúðanna vegna þess að sótt var um gistileyfi til veita mætti Airbnb-þjónustu en Reykjavíkurborg reyndi að hindra þau áform og var horfið frá þeim.

Ákvarðanir um gistileyfin eru teknar á æðstu stöðum í borgarkerfinu. Skyldi Hjálmar hafa verið með í ráðum þegar rætt var um Snorrabraut 62? Fer það eftir verktakanum hvort unnt er smeygja sér fram hjá Hjálmari til að fá gistileyfi?

Eea46228-23f2-4145-a9d1-e97b8c788274Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri Snorrahúsa, (mynd: mbl/Kristinn Magnússon).

Kristinn Þór segir athyglisverða sögu um handstýringu Dags B. Eggertssonar á lóðaúthlutunum:

„Hann [borgarstjóri] er á þeirri skoðun að handstýra þurfi lóðaframboðinu því það sé nánast engum treystandi til að vera móttakandi á lóðum því að það ætli allir að græða. Ég hef þá sagt á móti að hagfræði 101 sé ekkert flókin. Eina leiðin til að ná lóðaverði niður – og hann varð mjög reiður þegar ég sagði þetta – er að tryggja nógu mikið framboð af lóðum. Ef lóðir eru hilluvara þá getur enginn raunverulega grætt á lóðum nema að hann eigi lóðir sem eru að einhverju leyti óvenjulegar eða einstakar.“

Í tíð Dags B. sem borgarstjóra hefur þróast lokað klíkukerfi við úthlutun lóða í Reykjavík. Eins og orð Kristins Þórs sýna býr vinstri hugsjónin um að enginn megi græða að baki. Þéttingararstefnan í lóðamálum er skýrasta birtingarmynd handstýringarinnar en um hana segir Kristinn Þór:

„Ég held að við höfum aldrei í Íslandssögunni séð jafn mikið brask með lóðir eins og út af þessari þéttingarstefnu.“

Hann bendir á að markaðurinn leiti stöðugt að lóðum og með því að gera þær að mikilli „skortvöru“ komi til sögunnar fjárhagslega sterkir aðilar sem breytist í hrægamma sem „reyna að hirða lóðir“. Hann bendir á opinberu blekkinguna þegar hann segir:

„Fulltrúar borgarinnar segjast eiga lóðir fyrir 14 þúsund íbúðir og segja að verktakar geti bara byrjað á morgun. Svo fer maður að skoða þetta og þetta reynist ekki vera rétt. Það á við flestar af lóðunum sem eru byggingarhæfar að það tekur líklega þrjú ár að fara í gegnum skipulagsferlið, þótt búið sé að deiliskipuleggja lóðina. Þá á eftir að koma byggingarhæfum teikningum í gegnum skipulagið sem er með ólíkindum erfitt.“

Að þetta kerfi hafi fengið að dafna vegna hugsjóna Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar er ömurlegt. Það dugar ekki að látast verða hissa þegar einum er umbunað umfram annan með handstýringu. Nær væri að skammast sín fyrir klíkuskapinn.