30.3.2019 10:10

Klausturmálið - taka 2

Fyrir þá sem hafa áhuga á að upplýsa dularfull mál eða brjóta samsæriskenningar til mergjar er Klausturmálið svonefnda kjörið viðfangsefni.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að upplýsa dularfull mál eða brjóta samsæriskenningar til mergjar er Klausturmálið svonefnda kjörið viðfangsefni. Aðalfrétt Morgunblaðsins á forsíðu í dag (30. mars) er reist á frásögn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, sem hvarf tímabundið af þingi í lok nóvember 2018 eftir að fjölmiðlar birtu upptökur af fundi sem hann sagt á barnum Klaustri skammt frá Alþingishúsinu að kvöldi þriðjudags 20. nóvember.

Fundinn sátu forystusveit Miðflokksins og tveir forystumenn þingflokks Fólks flokksins. Tilgangur fundarins var að ræða inngöngu formanns og varaformanns þingflokks Flokks fólksins í Miðflokkinn.

1107788Bára Halldórsdóttir tók samtal þingmannanna upp og sendi upptökuna fjölmiðlum. Birtust fyrstu hlutar samtals þingmannanna á vefsíðum Stundarinnar og DV að kvöldi miðvikudags 28. nóvember. Þá var ekki strax skýrt frá nafni Báru en haft eftir henni að hún hefði orðið svo forviða þegar hún heyrði orðbragðið og níðangurslegt tal um konur og fatlað fólk í þessum hópi manna þar sem hún þekkti aðeins Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra, í sjón að hún hefði ákveðið að nota síma sinn sem upptökutæki við barborðið.

Bergþór Ólason hefur nú grandskoðað efni úr öryggismyndavél frá kvöldinu örlagaríka 20. nóvember og segir við Morgunblaðið:

„Myndin sem upptökur úr öryggismyndavélum sýnir er allt önnur en sú sem Bára Halldórsdóttir hefur lýst. Það skýrir hvers vegna lögmenn Báru börðust svo hart gegn því að þessar upptökur væru skoðaðar.“

Myndefnið þykir benda til þess að framganga Báru hafi verið undirbúin en ekki fyrir tilviljun, að sögn Bergþórs. Bára hefði gengið beint til verks. Ekki vantaði nema sex mínútur upp á að sá tími sem upptökurnar tóku til væri jafn langur og sá tími sem Bára var inni á staðnum. Útilokað væri að henni hefði ofboðið orðbragð þingmannanna og því byrjað að hljóðrita tal þeirra, til þess hefði ekki gefist tími. Bergþór telur að Bára hafi verið með upptökutæki auk símans. Þá hafi Bára sjálf tekið mynd inn um glugga Klausturs þar sem þingmennirnir sjást en ekki henni ótengdur aðili eins og sagt hefði verið

Niðurstaða Bergþórs vekur fleiri spurningar en hún svarar. Hún breytir engu um óboðlega framgöngu sumra manna á þessum fundi. Hún bendir hins vegar til þess að einhver hafi vitað um hann og viljað vita hvað þar færi fram. Eftir að hafa kynnt sér það talið það þjóna hagsmunum sínum að birta efnið opinberlega. Siðanefnd alþingis telur framgöngu þingmannanna falla undir verksvið sitt.

Harkaleg viðbrögð Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, sem rak þá Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason tafarlaust úr flokki sínum (þeir hafa nú gengið í Miðflokkinn) hafa dregið dilk á eftir sér. Halldór Gunnarsson, einn af stofnendum Flokks fólksins, sakaði Ingu Sæland um það í opnu bréfi í Morgunblaðinu 26. mars að hafa ekki staðið skil á söfnunarfé upp á 470.000 krónur inn á bankareikning flokksins. Halldór var andvígur brottvísun Ólaf og Karls Gauta úr flokknum.