14.3.2025 9:56

Klassísk elítuátök kommúnista

Gunnar Smári „útskúfar“ Karli Héðni af ótta við að hann sé útsendari Sólveigar Önnu og Viðars. Um er að ræða klassísk elítuátök í hreyfingu kommúnista.

Karl Héðinn Kristjánsson, forseti ungra sósíalista, sagði sig úr kosningastjórn Sósíalistaflokksins miðvikudaginn 12. mars. Í opnu bréfi á Facebook sagði hann sér hafa verið útskúfað fyrir að segja sannleikann um „ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot“ Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.

Flokkurinn fær árlegar greiðslur úr ríkissjóði vegna þess að hann bauð fram í þingkosningum 2021 og hlaut 4,1% atkvæða og 2024 og hlaut 3,9% atkvæða. Til að fá opinberan styrk þarf flokkur að hljóta minnst 2,5%. Leiðtogi flokksins frá 2024 er Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi frá 2018 og nú forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

1370014Sólveig Anna Jónsdóttir og Gunnar Smári Egilsson (samett mynd, mbl.is).

Karl Héðinn segir frá því að Alþýðufélagið og Vorstjarnan fái samanlagt nær öll framlög Sósíalistaflokksins. Hvorki félagið né Vorstjarnan starfi þó samkvæmt opnum og lýðræðislegum reglum.

Um Vorstjörnuna segir að hún sé fjármögnuð með framlögum og gjöfum einstaklinga og félaga, t.d. styrktarframlagi Reykjavíkurborgar til Sósíalistaflokks Íslands og helmingi af styrk ríkissjóðs til flokksins.

Karl Héðinn segir að Alþýðufélagið sé í raun einkafélag Gunnars Smára sem eigi og reki Samstöðina, það er sjónvarpsstöð. Félagið lúti „sýndarstjórn“. Þar sé ekki efnt til neinna félagsfunda og engin leið sé fyrir almenna félagsmenn að hafa áhrif á starfsemi þess. Hann segir að sér hafi verið bannað að bjóða sig fram til setu í stjórn Alþýðufélagsins.

Að eigin sögn vann hann hörðum höndum í sjálfboðavinnu að því að koma Samstöðinni á legg, sinnti fréttaskrifum, dagskrárgerð og tæknimálum. Síðsumars 2023 neitaði Gunnar Smári hins vegar að greiða Karli Héðni umsamin laun þar sem hann skilaði ekki þremur fréttum á dag. Við svo búið lét Karl Héðinn af störfum en sinnir nú fræðslu- og félagsmálum hjá Eflingu stéttarfélagi undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem stóð að stofnun Sósíalistaflokksins með Gunnari Smára og Viðari Þorsteinssyni sem einnig sinnir fræðslu- og félagsmálum hjá Eflingu, megi marka heimasíðu félagsins.

Gunnar Smári studdi valdatöku Sólveigar Önnu í Eflingu á sínum tíma og beitti sér til dæmis sérstaklega gegn þáverandi fjármálastjóra félagsins, þar færi „augljóslega ómerkileg manneskja og illgörn”. Sneri málið að launagreiðslum til eiginkonu Gunnars Smára.

Af þeim deilum sem nú eru uppi vegna opins bréfs Karls Héðins má álykta að þar sé í raun um að ræða ágreining í röðum sósíalista sem ristir dýpra en birtist í einskærri óvild Gunnars Smára í garð Karls Héðins. Þetta sé uppgjör milli þeirra þriggja sem stóðu að stofnun Sósíalistaflokksins á sínum tíma.

Viðar Þorsteinsson samdi lög Sósíalistaflokksins á sínum tíma og beitti sér síðan fyrir því að stofnað yrði „félagssvið“ Eflingar til að skapa samstarfsvettvang félagsins og Sósíalistaflokksins.

Gunnar Smári „útskúfar“ Karli Héðni af ótta við að hann sé útsendari Sólveigar Önnu og Viðars. Um er að ræða klassísk elítuátök í hreyfingu kommúnista.