30.1.2022 10:41

Klappstýra Dags B. gefur tóninn

Þegar fyrirliði klappliðsins afhjúpar hugarfar liðsmanna á þennan hátt geta menn rétt ímyndað sér hvernig talað er í búningsklefanum áður en haldið er á átakavöllinn.

Einlægir aðdáendur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra láta í sér heyra núna vegna lokaðs forvals innan Samfylkingarinnar þar sem hann sækist eftir oddvitasæti í krafti þess að hafa setið 20 ár í borgarstjórn og verið borgarstjóri í átta ár auk þess að hafa haldið um stjórnartauminn hjá Jóni Gnarr næstu fjögur ár þar á undan sem formaður borgarráðs. Í 20 ár hefur Dagur B. verið með Sundabraut á vörunum án þess að gera annað en að tala um hana, hann vill fæla borgarbúa frá fjölskyldubílnum og hefur stuðlað að stöðugri hækkun húsnæðisverðs með því að þétta byggð. Nú fyrir kosningar gælir hann við auðfélög og heimilar þeim að braska með bensínstöðvalóðir án endurgjalds í borgarsjóð.

Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri og einn leiðarahöfunda Fréttablaðsins, fer fremst í flokki klappstýra Dags B.. Í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 28. janúar varpar Kolbrún fram þessari spurningu: „Hvaða ástæða er til að kjósa þessa flokka [Viðreisn, Vinstri græn og Pírata] þegar hægt er að fá ekta útgáfu með því að kjósa Dag B. Eggertsson og Samfylkinguna?“

Hún lýsir samstarfsflokkum Dags B. í borgarstjórn sem „karakterlausum og máttlausum“ þeir muni þó reyna að hressa upp á ímynd sína fyrir kosningarnar með „rándýrum ímyndarfræðingum og almannatenglum“ og frambjóðendur flokkanna „reyna að stíga út úr litleysinu“. Kolbrún segir þetta allt tilgangslaust: „Ekkert mun samt breyta því að hlutskipti þessara frambjóðenda verður að standa í skugganum af Degi B. Eggertssyni.“

Kolbrún spyr þóttafull: „Hver er sérstaða Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata í samstarfinu? Hún blasir alls ekki við.“ Lokaspurning hennar er: „Er ekki bara best að kjósa Dag B. Eggertsson?“ Hún er ekki hugmyndaríkari en framsókn.

Chiang-rai-thailand-september-unidentified-beautiful-you-young-thai-marching-band-member-participating-parade-sporting-day-77590982Þegar fyrirliði klappliðsins afhjúpar hugarfar liðsmanna á þennan hátt geta menn rétt ímyndað sér hvernig talað er í búningsklefanum áður en haldið er á átakavöllinn. Þau eru ekki hátt skrifuð innan Samfylkingarinnar eða meðal nánustu stuðningsmanna Dags B. sem hafa í átta ár stutt hann sem borgarstjóra. Nú skulu kjósendur þessara flokka í Reykjavík bara hundskast til að hætta við að kjósa eftirlíkingarnar og snúa sér að því sem er ekta: Samfylkingunni.

Í vikunni var skýrt frá því að Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrv. þingmaður Pírata og formaður þingflokks þeirra, hefði tekið við formennsku í fulltrúaráði Samfylkingarinnar í Reykjavík þegar formaðurinn, Hörður J. Oddfríðarson, hætti öllum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna fimmtudaginn 27. janúar.

Valdataka fyrrverandi forystumanns Pírata í Samfylkingunni í Reykjavík varð ef til vill kveikjan að því að Kolbrún taldi tímabært að lýsa opinberlega vanþóknun á samstarflokkum Dags B. í borgarstjórn.

Eitt er að hrífast svo af Degi B. að sjá ekki aðra flokka fyrir honum, annað að láta eins og atkvæði greitt Samfylkingunni sé stuðningur við eitthvað „ekta“. Flokkurinn er í molum. Sjálfur telur Dagur B. sig hafinn yfir flokkinn, lætur þess ekki einu sinni getið í lofbók um sig og verk sín að hann hafi verið þar varaformaður með sjálfri Jóhönnu Sigurðardóttur sem formanni.