4.3.2022 9:38

Kjarnorku-hryðjuverkamaðurinn Pútin

Kjarnorkuvopninu má beita á ýmsan hátt, til dæmis að í gervi hryðjuverkamanns eins Zelenskjí sakar Pútin um að gera.

Mörgum var brugðið að morgni föstudags 4. mars vegna frétta um eld í kjarnorkuverinu í Zaporizhzhia í Úkraínu eftir að rússneskt stórskotalið skaut á það fimmtudaginn 3. mars. Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, sakaði Rússa um „kjarnorku-hryðjuverk“.

Utanríkisráðherra Úkraínu sagði að sprenging í kjarnorkuverinu gæti orðið „10 sinnum öflugri en Tsjernobyl“. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta sagði að þessi ábyrgðarlaus framganga Pútins forseta kynni nú að ógna beint öryggi allrar Evrópu. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin sagði að morgni 4. mars að mælar sýndu ekki aukna geislavirkni.

1646245644322Kjarnorkuver í Úkraínu, með 15 kjarnakljúfum. Rússneski herinn skaut á það sem er neðst á kortinu með sex kjarnakljúfum. Hann hefur verið nú á valdi sínu.

Það er nú um vika frá því að Pútin veifaði kjarnorkuvopninu til að sýna mátt sinn í hernaðinum á hendur Úkraínumönnum. Vopninu má beita á ýmsan hátt, til dæmis að í gervi hryðjuverkamanns eins Zelenskjí sakar Pútin um að gera.

Brunavörðum tókst að hindra að eldur færi í kjarnakljúfa versins sem nú er á valdi Rússa. Þingið í Moskvu bannaði að morgni 4. mars allar fréttir af stríðsaðgerðunum í Úkraínu og þess vegna verður þagað skipulega yfir stöðunni í þessu risastóra kjarnorkuveri. Rifjar það upp minningar um lygavefinn sem sovésk stjórnvöld spunnu um Tsjernobyl-slysið.

Í yfirlýsingu um árásina á kjarnorkuverið sagði Zelenskíj Úkraínuforseti að allar þjóðir heims ættu að fá að vita að ekkert ríki fyrir utan Rússland hefði áður ráðist með stórskotahríð á kjarnorkuver. Forsetinn sagði:

„Þetta gerist nú í fyrsta skipi í sögu okkar, í fyrsta skipti í mannkynssögunni. Þetta hryðjuverkaríki hefur nú gripið til kjarnorku-hryðjuverks. Í Úkraínu eru fimmtán kjarnakljúfar. Springi einn eru það endalok alls. Endalok Evrópu. Það jafngildir brottflutningi frá Evrópu. Það er aðeins unnt að stöðva rússnesku hersveitirnar með tafarlausri evrópskri aðgerð. Það verður að koma í veg fyrir að Evrópa deyi í kjarnorkuhamförum.“

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna auk ráðherra frá Svíþjóð og Finnlandi og fulltrúa ESB koma saman til fundar í Brussel föstudaginn 4. mars. Fréttir af ummælum ráðherra ýmissa landa sýna að þeir vilja nú að all options, allar leiðir, séu ræddar þegar lagt er á ráðin um aðgerðir undir merkjum NATO. Þetta er annað orðalag en áður þegar áréttað hefur verið að NATO-ríki beiti ekki beint hervaldi til að halda aftur af Rússum eða stöðva ódæðisverk þeirra í Úkraínu.

Á vefsíðu enska vikuritsins The Spectator er haft eftir ónafngreindum breskum ráðherra:

„Pútin mat þrjú atriði rangt: Hann vanmat algjörlega ásetning Úkraínumanna um að berjast. Hann vanmat algjörlega ásetning Vestursins og samheldni; hann hélt að við værum of úrkynjuð. Og hann heldur að hann sé í Rússlandi Stalíns og að fólk láti bjóða sér hvers kyns harðræði möglunarlaust.“

Til marks um hræðslu á heimavelli er að rússneska þingið samþykkti að morgni 4. mars að fangelsa mætti hvern þann sem segði „falsfréttir“ um rússneska herinn. Þá má einnig refsa hverjum þeim sem hvetur til refsiaðgerða gegn Rússlandi. Pútin vill ráða öllum opinberum umræðum í Rússlandi samhliða vaxandi blóðbaði í Úkraínu og meiri þunga í kjarnorkuhótunum.