Kjarkur forsætisráðherra
Nú reynir á hvort hugur fylgi þessu máli hjá forsætisráðherra. Hvort hún hefur nægan kjark sjálf til að bregðast við verkefni sem liggur á hennar borði og hvergi annars staðar enda er líf og trúverðugleiki stjórnar hennar í húfi.
Frásögn Morgunblaðsins í dag (25. janúar) af viðbrögðum ráðherra eftir ríkisstjórnarfund í gær við spurningum um fjármál Flokks fólksins sýnir að málið er mun viðkvæmara pólitískt en til dæmis fréttastofa ríkisútvarpsins skilur þótt hún sé með gagnrýna stjórnmálablaðamenn á hverjum fingri eigi t.d. Sjálfstæðisflokkurinn hlut að því sem talið er vandræðamál í Efstaleiti.
Það er einstakt að stöðvaðar séu opinberar fjárgreiðslur til stjórnmálaflokks vegna þess að frá árinu 2022 hafi að sögn Ingu Sæland, flokksformanns og núv. félagsmálaráðherra, verið staðið ranglega að skráningu flokksins og hann því ekki verið styrkhæfur – samt hefur hann fengið 240 milljónir kr. greiddar úr ríkissjóði.
Inga Sæland hefur þvertekið fyrir að ofgreidda féð verði endurgreitt. Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra í umboði Viðreisnar, segir hins vegar enn óljóst hvernig verði tekið á 240 milljóna króna flokksstyrkjunum án þess að Flokkur fólksins uppfyllti lagaskilyrði til að fá féð greitt.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skaut sér undan að svara efnislega spurningum um styrkjamálið og sagðist þurfa að kynna sér það betur! Þetta er sérkennilegur flótti forsætisráðherra frá stórpólitísku viðfangsefni sem snertir grundvallaratriði góðra stjórnarhátta.
Í áramótaávarpi sínu sagði Kristrún: „Ég mun leitast við að tala kjark í þjóðina með því að segja hlutina eins og þeir eru og tala af hreinskilni um verkefnin sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki allt auðvelt. En við höfum skyldum að gegna, gagnvart hvert öðru, landi og þjóð.“ Og Kristrún sagði einnig: „Komum hreint fram. Stöndum saman. Göngum í verkin.“
Nú reynir á hvort hugur fylgi þessu máli hjá forsætisráðherra. Hvort hún hefur nægan kjark sjálf til að bregðast við verkefni sem liggur á hennar borði og hvergi annars staðar enda er líf og trúverðugleiki stjórnar hennar í húfi.
Í frétt Morgunblaðsins segir: Inga Sæland „flýtti sér í gegnum hóp blaðamanna, sem biðu fyrir utan ríkisstjórnarfundinn, og vildi engum spurningum svara“. Ráðherrann Eyjólfur Ármannsson, flokksbróðir Ingu, sagði aðeins stundarhátt eftir fundinn: „Ég er svangur. Ég verð að borða!“
Glaðbeitta viðreisnarkonan Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra virtist koma af fjöllum þegar blaðamaður benti henni á að dómsmálaráðherra færi með framkvæmd úthlutunar á styrkjum til stjórnmálaflokka vegna útlagðs kostnaðar við kosningabaráttu. Þeir styrkir eru háðir sömu skilyrðum og önnur opinber framlög til stjórnmálaflokka.
Þagnarbindindi eða fáviska ráðherra réð ekki í samtali stjórnmálaskýranda Eyjunnar/DV, Ólafs Arnarsonar, við Ingu Sæland á hlaðvarpi þessara miðla Helga Magnússonar, stofnanda Viðreisnar. Þau virtust tala saman af þekkingu á aðferðum við að misfara með fé annarra. Ólafur sagði þetta mál „storm í vatnsglasi“ og Inga lýsti því sem „formsatriði“. Þau voru sammála um að þetta væri í raun allt sjálfstæðismönnum og Morgunblaðinu að kenna. Ólafur sagði spekingslega Ingu til afsökunar: „Ég tek undir það, hef alltaf litið á Flokk fólksins sem stjórnmálaflokk.“ Þá vitum við það – málinu er lokið.