7.1.2019 9:32

Kjaraátök í stað lausna

Mánuðum ef ekki árum saman hafa menn vitað hvert stefndi í kjaramálunum um þessi áramót.

Þegar menn hafa ekki hugmynd um hvaða stefnu mál taka eða hvenær tekst að binda enda á ágreining miða þeir gjarnan við að eitthvað gerist „fyrir vikulok“ eða rétt sé að bíða „fram yfir helgi“. Þessi staða er nú uppi í kjaraviðræðum fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins (SA).

„Ég bind vonir við að línur skýrist fyrir vikulok og næsta vika geti farið í úrvinnslu,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag (mánudaginn 7. janúar).

Frétt blaðsins er að um tuttugu fundir séu á dagskrá í vikunni í kjaraviðræðunum. Áður hafa birst fréttir um að ríkissáttasemjari hafi ráðið um tug manna til að aðstoða sig við þessi fundahöld.WAGES

Mánuðum ef ekki árum saman hafa menn vitað hvert stefndi í kjaramálunum um þessi áramót. Viðræður hafa vissulega farið fram, meðal annars með þátttöku ráðherra. Í nóvember var talað um að línur myndu skýrast fyrir 10. desember. Nú er talað um að það gerist „fyrir vikulok“ og „úrvinnsla“ verði eftir helgi.

Eitt af því sem verkalýðsforingjar telja sig þurfa að fá á hreint er hvort samningarnir sem þeir vilja kannski gera eftir dúk og disk, spennu og átök, „gildi frá áramótum“. Hvort harðar deilur verða um þetta atriði kemur í ljós. Hitt er þó ekkert náttúrulögmál að ekki hefði verið unnt að ljúka samningum fyrir áramót.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skipar sér í róttækan arm verkalýðshreyfingarinnar með formanni Eflingar-stéttarélagi og formanni VR. Þessir formenn urðu fyrstir til að vísa deilu við viðsemjendur sína til ríkissáttasemjara, áður en samningstímabilinu lauk. Þeir vildu með því skapa sér stöðu til róttækra aðgerða.

Formaður VR leitar fyrirmynda til gulvestunga í Frakklandi sem brutu og brömluðu eigur annarra um nokkrar helgar fyrir jólin. Þeir kveiktu meðal annars í bílum á götum úti og réðust á glugga á verslunum.

Allt er þetta átakatal stórundarlegt í ljósi gífurlegrar kaupmáttaraukningar undanfarin ár og hlutlægra athugana sem sýna að vísasti vegurinn til að eyðileggja árangurinn sem náðst hefur er einmitt að ganga fram á þann hátt sem að ofan er lýst. Sé öllum skynsamlegum viðmiðum hafnað er voðinn vís. Þetta á við enn þann dag í dag eins og jafnan áður. Samt spóla menn áfram í sama farinu og láta jafnvel eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Samskiptahættir í þjóðfélaginu hafa breyst minnst þegar kemur að samningum um kaup og kjör. Í  stað þess að semja í friði og spekt er markmið sumra að rjúfa friðinn og efna til átaka, einkum sjálfum sér til dýrðar.