30.11.2023 10:36

Kissinger kvaddur

Oftar en einu sinni hlustaði ég á Kissinger flytja ræður eða taka til máls í pallborðsumræðum, dimmri röddu á ensku með bæverskum hreim sem aldrei hvarf. 

Henry Kissinger, fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, andaðist 100 ára að aldri miðvikudaginn 29. nóvember 2023 á heimili sínu í Kent í Connecticutríki í Bandaríkjunum. Hann fæddist árið 1923 í Bæjaralandi í Suður-Þýskalandi þar sem faðir hans var kennari. Fjölskylda hans lagði á flótta til Bandaríkjanna árið 1938 undan yfirgangi nazista. Kissinger fékk bandarískan ríkisborgararétt árið 1943 og þjónaði í landher Bandaríkjanna til 1946. Hann var í varaliði Bandaríkjahers til 1959.

Hann lauk doktorsprófi frá Harvard-háskóla þar sem hann kenndi alþjóðastjórnmálafræði í tæp 20 ár. Richard Nixon Bandaríkjaforseti skipaði hann þjóðaröryggisráðgjafa sinn árið 1969. Síðar var hann utanríkisráðherra hjá Nixon og arftaka hans Gerald. R, Ford.

Dr. Kissinger gegndi lykilhlutverki við að koma á stjórnmálatengslum milli Kínverja og Bandaríkjamanna fyrir um hálfri öld. Hann lagði mikið af mörkum við gerð friðarsamninga eftir Yom Kippur-stríðið í Mið-Austurlöndum og til að binda enda á Víetnamstríðið. Þá stuðlaði hann að minnkun spennu milli austurs og vesturs í kalda stríðinu.

Hann er höfundur 21 bókar um alþjóða- og þjóðaröryggismál. Bandaríkjaforsetar allt frá John F. Kennedy, sem var myrtur fyrir 60 árum, til Joes Bidens leituðu ráða hjá Kissinger. Hann fagnaði 100 ára afmæli í maí 2023. Í júlí 2023 fór hann í heimsókn til Kína og hitti meðal annarra Xi Jinping forseta. Allt til dánardags leituðu fjölmiðlar álits hans, nú síðast vegna hryðjuverka Hamas 7. október 2023 og átakanna sem eftir fylgdu.

TELEMMGLPICT000002086114_17013111215700_trans_NvBQzQNjv4BqUcpjpFzmqVBq1q1HRvwdfNa4UsK6WeQMISliM0XcOLMHenry Kissinger.

Dr. Kissinger átti bæði aðdáendur og harða gagnrýnendur. Bandaríska tímaritið Rolling Stone segir í fyrirsögn minningargreinar um hann: Henry Kissinger, War Criminal Beloved by America’s Ruling Class, Finally Dies. Þar er honum lýst sem „alræmdum stríðsglæpamanni“ sem hafi borið ábyrgð á „dauða hvers einasta manns sem féll í Víetnam frá hausti 1968 þar til Saigon féll“.

Þessi þungi áfellisdómur hefur sérstöðu í umsögnum bandarískra fjölmiðla um Kissinger.

Í franska blaðinu Le Monde segir að dr. Kissinger hafi verið „óvæginn og leyndi jafnvel ekki foragt sinni en kunni að heilla þá sem hann þurfti á að halda“. Til að ná diplómatískum árangri hafi hann beitt „kaldhæðni og tælingu, ófyrirleitni og leikni“.

Oftar en einu sinni hlustaði ég á Kissinger flytja ræður eða taka til máls í pallborðsumræðum, dimmri röddu á ensku með bæverskum hreim sem aldrei hvarf. Hann talaði oft af kuldalegu raunsæi. Eftir að Pútin réðst inn í Úkraínu voru viðbrögð Kissingers túlkuð Úkraínumönnum í óhag. Hann sá sig knúinn til að taka af skarið um fordæmingu sína á innrásinni.

Í bók sinni World Order er Kissinger eindreginn málsvari þess að landamæri, röð og regla séu virt til að tryggja heimsfrið og koma á friði sé hann rofinn.

Dr. Kissinger lét sig ekki vanta í morgunsund væri það í boði á hótelum sem hann gisti. Hefur það tvímælalaust stuðlað að langlífi hans og skarpri dómgreind eins og margra annarra morgunsundmanna.