Kínverskir sæstrengir til Landsnets
Blaðamaðurinn hefði auðveldlega getað kafað dýpra. Bara með því að fara á Wikipediu má sjá að Hengtong Sumbarine Cable er lýst sem besta vini CCP, Kommúnistaflokks Kína.
Frá því var skýrt 9. júlí að Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, hefði skrifað undir samning við fulltrúa frá Hengtong Submarine Cable um kaup og lagningu á 38,8 km af sæstrengjum. Um væri að ræða tvo nýja Vestmannaeyjastrengi og nýjan streng yfir Arnarfjörðinn. Lagningarskip kæmi til landsins sumarið 2025 til að leggja strengina.
Í frétt Viðskiptablaðsins um undirritunina er Hengtong Group lýst sem stærsta framleiðanda ljósleiðara og rafmagnssnúra í Kína. Fyrirtækið sé meðal þriggja stærstu ljósleiðarasamskiptafyrirtækja í heiminum með um 15% markaðshlutdeild á alþjóðlegum markaði.
Blaðamaðurinn hefði auðveldlega getað kafað dýpra. Bara með því að fara á Wikipediu má sjá að Hengtong Sumbarine Cable er lýst sem besta vini CCP, Kommúnistaflokks Kína. Hengtong Group er tól kommúnistastjórnarinnar til að koma ár hennar fyrir borð sem víðast og ná strategískum ítökum. Með aðstoð gervigreindar má á skömmum tíma fá það staðfest.
Grunnhlutverk Landsnets er að „flytja raforku á samfelldan, hnökralausan, öruggan og hagkvæman hátt“ segir á vefsíðu ríkisfyrirtækisins. Það leggi „áherslu á að tryggja sem best öryggi í rekstri, uppbyggingu og við kerfisstjórn á raforkuflutningskerfi Íslands“.

Skjáskot úr Viðskiptablaðinu 9. júlí. Myndin frá Landsneti sýnir að þar eru menn sigri hrósandi vegna samningsins.
Vegna þessa grunnhlutverks er litið sérstökum augum á Landsnet þegar fyrirtæki eru flokkuð með þjóðaröryggi í huga. Á ensku er talað um critical infrastucture, það er mikilvæga innviði eða grunnvirki samfélaga sem sérstök áhersla er lögð á að verja fyrir beinum hernaðaraðgerðum eða fjölþáttaaðgerðum sem felast til dæmis í getu til að trufla rekstur eða slökkva á búnaði.
Áður en Vladimir Pútin beindi hernaði sínum í Úkraínu að barnaspítölum voru raforkuvirki Úkraínu vinsælasta skotmark hans í von um að geta eyðilagt viðnámsþol Úkraínumanna. Þegar slíkar árásir dugðu ekki var gripið til sömu ráða og í Sýrlandi á sínum tíma: að ráðast á sjúkrahús.
Einræðisherrar í stríðsham líta á raforkuvirki sem einn veikasta hlekkinn í nútímasamfélögum. Samningurinn sem ritað var undir 9. júlí veitir fyrirtæki í þjónustu Kínastjórnar aðgang að þessari slagæð íslensks samfélags. Í tilkynningu Landsnets um Kínasamninginn segir ekkert um hvaða öryggiskönnun fór fram fyrir undirritun samningsins eða hver framkvæmdi hana og hvernig.
Í nýlegri grein segir Kåre Dahl Martinsen, prófessor við norsku Varnarmálastofnunina, að Noregur sé að breytast í bakdyrnar fyrir Kínverja þegar aðrir loka á þá. Til marks um það sé til dæmis að Norðmenn séu ásamt Búlgörum meðal síðustu Evrópuþjóða til að taka upp fjárfestingaskimun og eftirlit. Prófessorinn hefði getað nefnt Ísland í sömu andrá, alþingi liggur enn á frumvarpi um slíkt eftirlit.
Hvað sem líður öllum vangaveltum á alþingi hefðu stjórnendur Landsnets átt að skynja sérstöku ábyrgðina sem hvílir á ákvörðunum þeirra í ljósi þjóðaröryggis. Verði aftur snúið með þessi viðskipti ætti að gera það.