2.4.2025 12:17

Kínverjum svarað á alþingi

Karl Steinar nefndi Kínverja sérstaklega til sögunnar þegar hann gat um njósnir hér á landi. Kínverska sendiráðið í Reykjavík brást við þeim orðum með harðorðri yfirlýsingu.

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, tók til máls undir dagskrárliðnum störf þingsins í upphafi fundar þriðjudaginn 1. apríl og sagði frá því að fimmtudaginn 27. mars hefði hann ráðstefnu á vegum lögreglunnar um öryggis- og varnarmál.

Áður en Grímur settist á þing eftir kosningarnar 30. nóvember 2024 hafði hann gegnt yfirmannsstöðum innan lögreglunnar og meðal annars verið tengslafulltrúi hennar í höfuðstöðvum Europol, Evrópulögreglunnar, í Haag í Hollandi.

Screenshot-2025-04-02-at-12.14.20

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn talar á ráðstefnu lögreglunnar 27. mars 2025 (mynd: mbl.is/Karítas).

Grímur nefndi sérstaklega ræðu Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns, yfirmanns öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra, á ráðstefnunni.

Karl Steinar lýsti stöðu mála eins og hún birtist í skýrslum greiningardeildar embættisins. Grímur sagði að upplýsingarnar hefðu verið „sláandi“. Þær hefðu þó ekki endilega komið á óvart miðað við heimsmyndina núna.

Í máli Karls Steinars, og raunar annarra sem töluðu á ráðstefnunni, hefði komið fram að við stæðum, eins og aðrar þjóðir, „frammi fyrir því að sum erlend ríki safna upplýsingum með þeim aðferðum sem við köllum njósnir. Fyrir liggur að sum ríki stunda njósnir og þá getum við sagt. Ergo: Njósnir eru stundaðar á Íslandi. Spurningin er hvernig við bregðumst við.“

Taldi Grímur grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að erlend ríki gætu verið á höttunum eftir upplýsingum sem við vildum ekki að væru opinberar og einnig væri matreiðsla upplýsinga atriði sem við þyrftum að hafa í huga. Rétt væri að halda því til haga að tengsl gætu verið á milli skipulagðra brotahópa sem seldu þjónustu sína, hryðjuverkahópa og tiltekinna ríkisstjórna. Aðstæður sem fyrir stuttu síðan hefðu verið nær óhugsandi væru nú að hluta raunhæfari sviðsmyndir. Því bæri að fagna að áskoranir yrðu greindar og gert ráð fyrir viðeigandi viðbrögðum kæmu þær upp.

Karl Steinar nefndi Kínverja sérstaklega til sögunnar þegar hann gat um njósnir hér á landi. Kínverska sendiráðið í Reykjavík brást við þeim orðum með harðorðri yfirlýsingu eins og sjá mátti á mbl.is föstudaginn 28. mars . Við öðru var ekki að búast og þeim mun meiri alvara fólst í orðum yfirlögregluþjónsins.

Sendiráðið sakar lögregluna um hroka og fordóma og bendir á að Kína „hafi unnið með Íslandi til að sigrast á þeim áskorunum sem þjóðin stóð frammi fyrir eftir efnahagshrunið 2008 og að það sé staðráðið í að auka vináttu við Ísland gagnvart núverandi óróa á alþjóðavettvangi,“ svo að vitnað sé í mbl.is

Yfirlýsingin minnir á eðli samskipta við einræðisríki. Þau vilja alltaf fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það reyndi aldrei á neina aðstoð frá Kína vegna bankahrunsins en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í sambandi við seðlabankastjóra Kína um hugsanlega aðstoð.

Engin ástæða er til að ætla að annað gildi í afstöðu Kína til Íslands en nágrannalanda sem öll vara við njósnum og ágengni Kínverja innan eigin landamæra.

Ræða Gríms Grímssonar á alþingi sýnir kínverska sendiráðinu í Reykjavík að áhrifamikill þingmaður í flokki utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra styður niðurstöðu greiningardeildar lögreglunnar.