6.9.2017 10:04

Kim Jong-un en ekki Trump er ógnvaldurinn í N-Kóreu

Stjórn- og þjóðskipulag í N-Kóreu hefur þróast með velþóknun sósíalista og í skjóli stjórnar kommúnista í Kína og Rússlandi.

Því var tekið sem stórfrétt í gær að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði að ekki þýddi að halda aftur af kjarnorkuvopnavæðingu N-Kóreumanna með frekari refsiaðgerðum af því að harðstjórinn Kim Jong-un mundi frekar láta landsmenn sína éta gras en stöðva þróun og tilraunir með gjöreyðingarvopn. Virtist sumum koma á óvart að Rússlandsforseti segði að stjórnendur N-Kóreu hikuðu ekki við að svelta þjóðina til að vígvæðast.

Að þetta komi einhverjum á óvart má rekja til þess að samhliða kjarnorkuvopnavæðingunni hafa ótrúlega margir látið blekkjast af þjóðfélagsástandinu í N-Kóreu. Þar hefur fólk orðið að éta gras til að draga fram lífið og gerir enn.

Vegna umræðna um Kim Jong-un og stjórnarhætti hans og forfeðra hans í rúm 70 ár hefur verið rifjað upp að snemma á áttunda áratugnum fór Birna Þórðardóttir, þjóðfræg baráttukona í þágu sósíalisma og andstæðingur Bandaríkjanna, í heimsókn til N-Kóreu. Eftir heimkomuna birtist viðtal við Birnu í málgagni sósíalista, Þjóðviljanum, þar sem hún bar mikið lof á leiðtoga N-Kóreu og skipan þjóðfélagsmála þar. Þjóðin nyti þess að ójöfnuði hefði verið útrýmt auk þess hefði hún nóg að bíta og brenna, flytti meira að segja út matvæli.

Stjórn- og þjóðskipulag í N-Kóreu hefur þróast með velþóknun sósíalista og í skjóli stjórnar kommúnista í Kína og Rússlandi. Ræða Pútíns sem nefnd er hér að framan sýnir að hann vill ekki þrengja meira en orðið er að Kim Jong-un. Harðstjórinn hefur tök á kínverskum stjórnvöldum sem óttast að hrun veldis hans leiði til bylgju hungraðra, heilaþveginna flóttamanna til Kína auk þess sem frjáls Kóreuskagi er ógn við valdhafana í Kína.

Stjórnmálafræðingar á borð við Silju Báru Ómarsdóttur, aðjunkt við Háskóla Íslands, ræða um N-Kóreu eins og ofvaxið peð sem skákar Bandaríkjunum og spurning sé hvort Bandaríkjamenn veiti því viðurkenningu sem kjarnorkuveldi. „Hingað til auðvitað hefur þessu verið tekið mjög fálega í Bandríkjunum,“ sagði Silja Bára í ríkisútvarpinu í morgun (6. september). 

Af því sem segir um þetta samtal við Silju Báru á ruv.is má ráða að einhver breyting hafi orðið að þessu leyti hjá Donald Trump Bandaríkjaforseti. Hann bregðist við tilraunum N-Kóreumanna núna með því að segja að ógni N-Kóreumenn Bandaríkjamönnum með kjarnorkuvopnum muni þeir taka til sinna ráða. Segir Silja Bára að „stór munur“ sé á því „að segjast ætla að beita kjarnorkuvopnum við ógnum eða gegn árás“. Aðjunktinn bætir við: „Þetta hefur skekið ekki bara pólitíska landslagið í Bandaríkjunum heldur líka fræðasamfélagið. Hins vegar er líka hægt að velta því fyrir sér hvort að þessi viðbrögð Trumps séu meira til heimabrúks vegna þess að vinsældir Trumps voru farnar að dala allverulega og með því að vera með þessi hörðu viðbrögð að þá sé hann að svona að spæna upp stuðning aftur frá því sem er kallað svona hans kjarnagrunnstuðningur.“ 

Óljóst er á hverju Silja Bára reisir fullyrðingu sína um skjálftann í Bandaríkjunum eða til hvaða orða Trumps hún vitnar máli sínu til stuðnings. James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kvað mjög fast að orði sunnudaginn 3. september um „alhliða hernaðarlegt svar“ við „hverri ógn“ – ekki aðeins árás heldur ógn – gegn Bandaríkjunum, yfirráðasvæði þeirra eins og Guam eða bandamönnum þeirra eins og Japönum og S-Kóreu. Ummælin vöktu mikla athygli en hvar varð skjálftinn?

Trump sagði hins vegar ekki alls fyrir löngu á fundi með stuðningsmönnum sínum í Arizona að viðbrögð sín við hótunum N-Kóreumanna væru farin að bera árangur. Þetta var áður en Kim Jong-un sprengdi öflugustu sprengju sína til þessa, líklega vetnissprengju. 

Til að átta sig á kjarnorkuæðinu í N-Kóreu og áhrifunum sem það hefur er óhjákvæmilegt að íhuga málið án þess að láta Trump trufla sig. Hann hefur margsagt að ekki verði komið böndum á Kim Jong-un nema Kínverjar geri það. Verði það ekki gert er líklegast að S-Kóreumenn eignist kjarnorkuvopn og ef til vill Japanir, eina þjóðin sem hefur kynnst á eigin skinni hörmungunum sem þau valda.