24.4.2018 17:23

Keflavík til Tel Aviv

Flugum kl. 06.40 með WOW Air til Tel Aviv flugið tók sex og hálfan tíma.

Flugum kl. 06.40 með WOW Air til Tel Aviv flugið tók sex og hálfan tíma. Við lentum 10 mínútum á undan áætlun. Flugþjónninn orðaði það svona þegar hann kynnti að við værum lent: „Gerir okkur 10 mínútur á undan áætlun.“

Nokkrir áratugir eru liðnir frá því að gert var átak til að íslenska fugmálið og tókst það vel. Tilkynning flugþjónsins var vissulega á íslensku en þó á ensku.

Ben Gurion-flugvöllur er á hebresku en ekki á ensku eins og Keflavíkurflugvöllur. Hefur Isavia ákveðið að tungumál Flugstöðvar Leifs Eirikssonar sé enska?

Um 40 km eru frá flugvellinum inn í Jerúsalem. Ökuferðin gekk vel nema bílstjórinn rataði ekki að hótelinu. Stórundarlegt.

IMG_5707Hér birti ég mynd af salnum þar sem fólk beið á Ben Gurion-flugvelli eftir að geta sýnt vegabréfið sitt áður en því var hleypt inn í landið. Svona væri þetta á Keflavíkurflugvelli dag hvern með Ísland utan Schengen. Við þurftum örugglega að bíða í 30 mínútur eftir að komast inn í fyrirheitna landið.

Vorum komin inn á hótel 19.30, það er 16.30 að íslenskum tíma.