10.12.2025 11:37

Kattarþvottur þingforseta

Það hentar fréttastofunni ekki lengur að kalla til sérfræðinga til að ræða málin þegar við blasir augljóst brot þingforseta á siðareglum alþingismanna. 

Ríkisstjórnarhollusta fréttastofu ríkisútvarpsins verður augljósari með hverjum deginum sem líður og þrengir að stjórninni og þingflokkum hennar. Vandi þess sem flytur fréttirnar er að hann getur ekki kennt stjórnarandstöðunni um þessi vandræði á stjórnarheimilinu. Þau eru öll heimagerð.

Einfaldast er að skýra það með því að benda á framgöngu forseta alþingis sem gekk bölvandi í reiðikasti út úr þingsalnum af því að hún þoldi ekki að þingmenn nýttu sér rétt sinn samkvæmt þingsköpum til að taka til máls í upphafi þingfundar.

Forsetinn taldi sig hafa samið um þögn og hlýðni þingmanna við sig! Þetta er sami þingforsetinn sem braut hefð í samskiptum forseta og þingmanna með því að beita kjarnorkuákvæðinu 14. júlí 2025. Það liggur í loftinu í þingsalnum að Þórunn Sveinbjarnardóttir ætli með samþykki Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra að beita ákvæðinu aftur.

Fréttastofa ríkisútvarpsins studdi það í sumar að þingmenn yrðu sviptir málfrelsi. Hún beinlínis ýtti undir stuðning við valdbeitinguna með fréttum sínum og viðtölum við réttlætingarsmiða ríkisstjórnarinnar meðal stjórnmálafræðinga. Beiting kjarnorkuákvæðisins skyldi sanna að íslenska þjóðin lyti verkstjórn.

Upplitið á stjórnarsamstarfinu er annað núna en fyrir tæpu hálfu ári. Það hentar fréttastofunni ekki lengur að kalla til sérfræðinga til að ræða málin þegar við blasir augljóst brot þingforseta á siðareglum alþingismanna. Frásögn af spurningum um það efni er hins vegar birt á vefsíðu ríkisútvarpsins ruv.is undir fyrirsögninni: Halda áfram að þjarma að þingforseta.

Screenshot-2025-12-10-at-11.33.37

Magnús Geir Eyjólfsson þingfréttamaður gat ekki leynt hneykslun sinni á því þriðjudaginn 9. desember að formaður Sjálfstæðisflokksins spyrði forsætisráðherra hvort siðareglur þingsins væru marklausar þegar ummæli þingforsetans hefðu engar afleiðingar. Í fréttinni sagði að forsætisráðherra liti svo á að máli þingforseta hefði lokið með afsökunarbeiðni þingforsetans. Fréttamaðurinn var greinilega sammála því og til að staðfesta að ákvörðun hefði verið tekin af fréttastofunni um lyktir málsins var Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir svörum í Kastljósi að kvöldi 9. desember, á fjórða degi frá því að hún varð sér til skammar í þingsalnum. Hún fékk „tilfinningalegt svigrúm“ án áreitni ríkisfréttamanna og skilningur stjórnanda Kastljóss á þrengingum hennar birtist þeim sem hlýddu á samtal þeirra.

Í máli Þórunnar kom fram að hún hefði tekið ígrundaða ákvörðun um að ganga ekki fram að fyrra bragði á þingi og biðjast afsökunar. Hún taldi sig vita að þegar þing kæmi saman til fyrsta fundar eftir hneykslið yrði að henni vikið vegna þess. Þá væri rétti tíminn fyrir hana til að stíga fram. Þetta gerði hún eftir að þingflokksformenn allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna höfðu tekið til máls. Færði Þórunn þeim þakkir fyrir ádrepur þeirra og baðst einlægrar afsökunar.

Leikrit í þingsal eða Kastljósi breyta engu um að Þórunn nýtur ekki lengur þess trausts eða virðingar sem þingforseti verður að njóta.