26.10.2017 12:56

Katrín boðar ESB-stjórn undir forsæti VG

Í ESB-málinu er vissulega enginn „pólitískur ómöguleiki“ hjá Katrínu Jakobsdóttur. Hún sér það þvert á móti sem tækifæri til stjórnarmyndunar að svíkja stefnuna sem hún segist hafa.

Þorbjörn Þórðarson skrifar um orð og efndir stjórnmálamanna í leiðara Fréttablaðsins í dag (26. október). Hann segir réttilega að kosningaloforðin sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður vinstri grænna (VG), kynnti um andstöðu við ESB og Icesave kvöldið fyrir kosningar í apríl 2009 hafi verið svikin á dramatískan hátt. Steingrímur J. fórnaði stefnu flokksins fyrir fjármálaráðuneytið.

Þá segir Þorbjörn:

„Fyrir alþingiskosningarnar 2013 lofuðu formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þáverandi formaður Framsóknarflokksins viðraði þá hugmynd á fundi í Hörpu að gera þetta samhliða sveitarstjórnarkosningunum 2014. Þetta var aldrei efnt vegna „pólitísks ómöguleika“ sem enginn treystir sér til að skilgreina.“

Bjarni Benediktsson skýrði „pólitíska ómöguleikann“ á þann veg að þess væri ekki að vænta að tveir flokkar. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem vildu ekki aðild að ESB efndu til þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda viðræðum áfram eftir að hafa sigrað flokka sem töpuðu kosningum meðal annars vegna þess að þeir vildu ræða áfram við ESB. Ríkisstjórnin 2013 til 2016 dró ESB-umsóknina til baka.

Í október 2016 fékk ESB-Samfylkingin illa útreið en  inn á þing kom annar ESB-flokkur, Viðreisn. Flokkur klofningsmanna úr Sjálfstæðisflokknum, sem fórnuðu ESB-stefnu sinni fyrir ráðherraembætti í janúar 2017. Nú hefur Viðreisn ýtt stofnanda sínum  og stefnu hans um upptöku evru til hliðar. Ráðamenn flokksmenn tala þó enn um evruna vegna sérhagsmuna eigenda fyrirtækja sem standa að baki flokknum. Um leið og þetta er gert láta Viðreisnarmenn eins og þeir séu sérstakir andstæðingar sérhagsmuna.

Í kosningabaráttunni nú birtist bandalag ESB-flokka undir forystu VG. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist í Morgunblaðinu í dag (26. október) ekki andvíg því að greidd verði atkvæði um tvær ESB-spurningar á næsta kjörtímabili. Þetta segir hún á sama tíma og hún segist andvíg ESB-aðild. Hvers vegna? Af því að hún býr sig undir að mynda ríkisstjórn með ESB-flokkunum: Pírötum og Samfylkingu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, ígildi formanns Pírata, vill að kosið verði um að sækja um ESB-aðild. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vill láta greiða atkvæði um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Þetta eru atkvæðagreiðslur um tvo ólík sjónarmið: ESB-umsókn og framhald ESB-viðræðna á grundvelli gamallar umsóknar.

Katrín Jakobsdóttir segir: „Það er hreint af okkar hálfu að við viljum auðvitað ekki sækja um aðild þannig að þetta er ekki forgangsmál hjá okkur en við munum hins vegar ekki leggjast gegn því.“

Þá segir í frétt Morgunblaðsins:

„Aðspurð hvort bera eigi undir þjóðina hvort ganga eigi í ESB eða hvort sækja eigi um aðild að bandalaginu segir Katrín að til greina komi að spyrja almenning beggja spurninga ef til atkvæðagreiðslu kemur á komandi kjörtímabili.“

ESB-afstaða formanns VG er frumleg: að vera á móti ESB-aðild en vilja setjast í ríkisstjórn með þá stefnu að lagt verði fyrir þjóðina: a) Viltu sækja um aðild að ESB? b) Viltu halda áfram viðræðum við ESB?

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi ESB-málið við mig á ÍNN .Skoðun Bjarna er sú að efni ríkisstjórn til þjóðaratkvæðagreiðslu eigi hún að gera það með því að leggja skýran kost, stefnu sína eða ákvörðun, fyrir þjóðina. Það eigi ekki að nota þjóðaratkvæðagreiðslur til að leita álits kjósenda í því skyni að skjóta stjórnmálamönnum undan að standa og falla með skoðun sinni.

Afstaða Katrínar Jakobsdóttur er sama marki brennd og Steingríms J. vorið 2009. Hann sveik loforð sitt og hafnaði síðan tillögu um að bera ESB-aðildarumsókn undir þjóðina. Katrín hafnaði þessari tillögu líka sumarið 2009. Nú ætlar hún að hafa vaðið fyrir neðan sig og segjast neydd til að vinna að aðild verði það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hún er meira að segja fús til að ganga svo langt til móts við ESB-flokkana að hún vill rugla kjósendur með tveimur andstæðum tillögum. Menn halda ekki áfram viðræðum sé engin ESB-umsókn.

Í ESB-málinu er vissulega enginn „pólitískur ómöguleiki“ hjá Katrínu Jakobsdóttur. Hún sér það þvert á móti sem tækifæri til stjórnarmyndunar að svíkja stefnuna sem hún segist hafa – í raun segist hún enga stefnu hafa heldur ætla að gera allt sem þarf til að mynda stjórn með ESB-flokkunum. Skyldi Viðreisn verða fjórða hjólið?