13.2.2024 10:43

Karlagrobb eða hótun?

Vandinn er á bandarískum heimavelli. Sé enginn þar sem getur skákað Trump sest hann aftur að í Hvíta húsinu. Mun sjálfumglaðari og óútreiknanlegri er áður.

Jim Sciutto, fréttamaður hjá CNN-fréttasjónvarpsstöðinni, hefur sent frá sér bókina The Return of Great Power – Endurkoma stórveldanna – þar sem háttsettur embættismaður sem starfað hefur bæði fyrir stjórnir Trumps og Joes Bidens segir: „Bandaríkin verða utan NATO sigri Trump Biden í forsetakosningunum í nóvember 2024.

Embættismaðurinn er ekki nafngreindur en fyrrverandi ráðgjafar sem störfuðu náið með Trump sem forseta taka undir þessi orð.

„Ég held að hann reyni að komast út [úr NATO],“ segir John Bolton sem var þjóðaröryggisráðgjafi Trumps í samtali við CNN.

Í bókinni lýsa fleiri ráðgjafar Trumps að hann hafi verið kominn á fremsta hlunn með að ákveða úrsögn Bandaríkjanna úr NATO á hitafundi ríkisoddvita bandalagsþjóðanna í Brussel árið 2018.

Þá var Trump öskureiður yfir að mörg evrópsk NATO-ríki legðu ekki eins mikið af mörkum og Bandaríkin.

Screenshot-2024-02-13-at-10.42.00

John Kelly, sem stjórnaði starfsliði Hvíta hússins fyrir Trump 2017-19, segir við CNN að Trump hafi ekki „séð neinn tilgang með NATO“.

Trump hafi til dæmis ekki séð hvaða máli það skipti að hafa bandaríska hermenn í herstöðvum í Japan og Suður-Kóreu og telji það hluta af tilraun NATO til að halda Kínverjum og N-Kóreumönnum í skefjum.

John Kelly segir að Trump hafi verið þeirrar skoðunar að NATO „ögraði“ einræðisherrum eins og Vladimir Pútin og Kim Jong-un:

„Hann taldi að Pútin væri besti karl og Kim væri besti karl ... að við hefðum þröngvað Norður-Kóreu út í horn.“

Vissulega er rétt hjá þeim sem bera blak af því sem kemur frá Trump núna um að hann myndi hafa hvatt Rússa til að ráðast á NATO-ríki sem borga ekki, að Trump hefur áður talað í svipaða veru.

Það afsakar ekki á nokkurn hátt þennan málflutning, sérstaklega ef síðan er leitast við að telja ábyrgum gagnrýnendum trú um að ekkert sé að marka þetta raus sem einkennist í vaxandi mæli af karlagrobbi. Trump hafi sýnt það sem forseti að munur sé á orðum hans og athöfnum þegar kemur að NATO.

Bandaríkjastjórn getur verið glapskyggn í samskiptum sínum við önnur ríki og farið sínu fram af miklu tillitsleysi. Þess vegna ber ekki að útiloka neitt þegar Donald Trump er annars vegar. Að spá í hvað honum kemur til hugar er ekki á neins færi.

Vandinn er á bandarískum heimavelli. Sé enginn þar sem getur skákað Trump sest hann aftur að í Hvíta húsinu. Mun sjálfumglaðari og óútreiknanlegri er áður.

Hvað sem líður efasemdum um konungdæmi nú á tímum eru þjóðir betur settar með erfðaprinsa og prinsessur en átök á fjögurra ára fresti milli manna sem viðurkenna hvorki hæfileg mörk vegna aldurs né ábyrgðar í málflutningi. Að ruglast á mannanöfnum eða í landafræði er lítilræði miðað við að vega að eigin öryggi og annarra til að sanna að maður sé viðskiptasnillingur. Sá eini sem kunni að semja.