15.11.2020 10:43

Karl Rove segir Trump að viðurkenna ósigur

Karl Rove telur engar líkur á að Trump eða mönnum hans takist að sýna eða sanna að beitt hafi verið svikum eða svindli við framkvæmd kosninganna.

Karl Rove er heimskunnur sem strategískur ráðgjafi repúblikana í bandarískum kosningum. Hann er jafnframt stjórnmálaskýrandi og dálkahöfundur í The Wall Steet Journal (WSJ), blaði hægra megin við miðju sem haldið hefur á loft árangri Trump-stjórnarinnar á mörgum sviðum en segir Donald Trump sjálfan í raun skorta þá persónulegu eiginleika sem forseti Bandaríkjanna verði að vera búinn til að hljóta endurkjör. Í stuttu máli hefur blaðið sömu skoðun og margsinnis hefur verið lýst hér á þessari síðu árum saman,

Í grein í WSJ 11. nóvember minnir Rove á að álitsgjafar hafi spáð sögulegri „blárri bylgu“, það er stórsigri demókrata, í kosningunum 3. nóvember, þeir næðu öldungadeildinni á sitt, ykju fylgi sitt í fulltrúadeildinni um 20 þingmenn og í stað meirihluta repúblikana myndu demókratar ná meirihluta í mörgum ríkisþingum. Það eina sem gerðist var að nýr maður komst í Hvíta húsið en ekkert af hinu rættist.

Meðaltal skoðanakannana á vefsíðunn RealClearPolitics leiddi til þeirrar spár að Joe Biden mundi sigra með 7,2 stiga mun litið til allra atkvæða. Þegar aðeins var ólokið talningu á litlum hluta atkvæða í Kaliforníu og New York var Trump 3,3 stigum á eftir Biden.

Im-258522Kjörsókn var um 66,5% sú mesta síðan 1908 þegar William Howard Taft og William Jennings Bryan börðust um forsetaembættið. The Fox News Voter Analysis benti á að 51% af kjósendum Bidens kusu hann frekar vegna andúðar á Trump en hrifningar á Biden en 79% kjósenda Trumps kusu hann frekar vegna hrifingar á honum en andúðar á Biden.

Þá sagði NBC­–sjónvarpsstöðin að 26% „ekki-hvítra“ kjósenda hefði stutt Trump „sem gerði vinstrisinnaða álitsgjafa brjálaða“ segir Rove. Einn þeirra lýsti þessum hópi kjósenda sem „sturluðum“.

Karl Rove telur engar líkur á að Trump eða mönnum hans takist að sýna eða sanna að beitt hafi verið svikum eða svindli við framkvæmd kosninganna. Hann segir að kosningarnar skilji vissulega eftir óbragð í munni margra og það setji svip sinn áfram á bandarísk stjórnmál. Það sé erfitt fyrir margar að kyngja úrslitunum en hjá því verði þó ekki komist til að skapa einhvers konar samstöðu og pólitískt jafnvægi. Trump verði að leggja sitt af mörkum til þess, hvað sem líði öllum málaferlum, honum beri að stuðla að friðsömum valdaskiptum.

Það þykir í frásögur færandi að undir lok vikunnar gaf Donald Trump óbeint til kynna að önnur stjórn kynni að taka við af sinni innan tíðar! Valdaskiptin fara fram 20. janúar 2021.