29.7.2020 10:09

Kári blæs til orrustu

Hnitmiðuð lýsing á COVID-19-hættunni sem að steðjar kemur fram hjá Kára í þessu samtali Snorra Mássonar við hann.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var ómyrkur í máli við Snorra Másson blaðamann í viðtali sem birtist á mbl.is að kvöldi þriðjudags 28. júlí. Tilefni samtalsins var COVID-19-hópsmit í landinu en boðað hafði verið að leitað yrði til Kára og samstarfsfólks hans til að greina vandann og finna lausn á honum.

1220867Þorkell á mbl.is tók þess mynd af starfsfólki á smitsjúkdómadeild.

Ný stórorrusta í baráttu íslenska heilbrigðis- og almannavarnakerfisins við kórónuveiruna er því hafin. Hnitmiðuð lýsing á hættunni sem að steðjar kemur fram hjá Kára í þessu samtali Snorra Mássonar við hann og leyfi ég mér því að endurbirta ummæli Kára:

„Ef heilbrigðisyfirvöld ákveða að breyta engu þrátt fyrir þetta, þá verðum við ekki með í leiknum. Þetta er ekki ástand sem býður upp á að standa hjá og horfa á.

Við ætlum ekki að halda áfram að skima í rútínu á landamærum Íslands, enda ekki okkar hlutverk. En þegar hætta steðjar að eins og núna, er mikilvægt að hreyfa sig hratt. Ég er búinn að vera kvíðinn í nokkra daga út af þessu og ein af aðferðunum til að takast á við þann kvíða er að hoppa inn í þetta og taka þátt í verkefninu.

Í hópsýkingunni eru þrír hópar, getum við sagt. Í fyrsta lagi er það hópsmit á Skaganum hjá farandverkamönnum, síðan er það faðirinn á Rey Cup og loks er það frjálsíþróttamaðurinn ungi. Þeir eru allir smitaðir af veiru með sama mynstri stökkbreytinga en samt vita þeir ekkert hver af öðrum.

Það er ekkert vitað hvernig þeir snertu hver annan, sem fær mann til þess að geta sér þess til að það séu aðilar á milli þeirra sem hafi smitast. Það hlýtur að vera. Hversu margir þeir eru vitum við ekki en sá möguleiki er fyrir hendi að þeir séu með mikið af veirunni og séu mjög smitandi, eins og tveir þeirra smituðu á Skaganum. Þeir voru með „ct-gildi“ upp á 13 og 14, sem er það lægsta sem við höfum séð og sá næsti fyrir ofan var með 18.[ Því lægra sem CT-gildi sjúklingsins er, þeim mun meira smitandi er hann.]

Þórólfur [Guðnason sóttvarnalæknir] hefur alltaf talað um þann möguleika að það þurfi að herða þetta aftur. Þetta er eðli farsóttar, þú herðir aðgerðir, slakar til, og herðir aftur. Nú er þetta að blossa upp í löndunum í kringum okkur þaðan sem fólk er að koma í heimsókn til okkar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að takmörkunum sé breytt.

Þetta er spurning um að herða þetta um skamman tíma og geta þá aflétt því aftur. Hinn valmöguleikinn er að bíða í eina eða tvær vikur og þurfa þá að loka öllu til eilífðarnóns. Hertar aðgerðir þjóna hagsmunum allra, þar á meðal ferðaþjónustunnar.

Ef heppnin er með okkur lítur þetta bara ógnvekjandi út og við getum slökkt á þessu í einum grænum hvelli. Ég vona svo sannarlega að svo sé. En eins og stendur finnst mér jafnmiklar líkur á að þetta hafi farið víða og að þetta sé enn einangrað á þessum stöðum.“

Öll hljótum við að vona að heppnin sé með okkur og enn á ný verði teknar réttar ákvarðanir til að halda vágestinum hér í skefjum þar til bóluefni útilokar hann.