Kannski nægir honum ekki Grænland
NYT segir að þarna birtist heimssýn Trumps í sinni tærustu mynd: Það er einungis styrkur þjóðar sem á að ráða úrslitum í hagsmunaárekstri við aðra þjóð.
Á mbl.is er sagt frá því að kvöldi laugardagsins 10. janúar að í The Daily hlaðvarpsþætti The New York Times (NYT) þann sama dag hafi David E. Sanger, aðalblaðamaður NYT í Washington, sem kallaður er til samtals í öllum helstu miðlum Bandaríkjanna, sagt vegna Grænlandsáforma Donalds Trump:
„Kannski nægir honum ekki að eignast Grænland? Kannski þurfum við að eignast Ísland líka?“
Blaðamenn NYT ræða í The Daily, sem hefur um 4 milljónir manna í áheyrendahópi sínum, efni mikils viðtals við Trump sem blað þeirra birti föstudaginn 9. janúar.
Þar sagðist Trump ekki verða ánægður með neitt minna en „eignarhald“ á Grænlandi. Hann sagði að Evrópa yrði að „taka sig á“ og að NATO væri gagnslaust án Bandaríkjanna. Hann hefði bjargað lífi NATO. Hann sagðist ekki bundinn af neinum alþjóðalögum, venjum eða hömlum sem mótvægi gegn forsetavaldinu.
Þegar blaðamenn NYT spurðu hvort það væru einhver takmörk á svigrúmi hans til að beita hernaðarmætti Bandaríkjanna, sagði hann: „Já, ein. Mitt eigið siðferði. Minn eigin hugur. Hann einn getur stöðvað mig.“
„Ég þarf ekki alþjóðalög,“ bætti hann við. „Ég ætla ekki að meiða neinn.“
NYT segir að þarna birtist heimssýn Trumps í sinni tærustu mynd: Það er einungis styrkur þjóðar sem á að ráða úrslitum í hagsmunaárekstri við aðra þjóð. Trump telur að fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hafi verið of varkárir við að beita valdi Bandaríkjanna.
Donald Trump ræðir við blaðamenn The New York Times.
Ummæli Sangers vísa til þessara orða Trumps. Ég hef vegna alls þessa áréttað þá skoðun í ræðu og riti að það séu brýnir gagnkvæmir hagsmunir Íslands og Bandaríkjanna að viðhalda góðu tvíhliða varnarsamstarfi á grundvelli varnarsamningsins, sem verður 75 ára innan skamms, og aðildarinnar að NATO. Það sé alrangt að gera megi varnarsamning við ESB. Beri það vott um vanhugsað ástandsmat að hefja nú aðildarferli að ESB vilji stjórnvöld hér komast hjá því að kalla fram þá tilfinningu hjá Trump sem David E. Sanger lýsir í ofangreindum orðum.
Trump vill eignast Grænland af því að hann telur að Evrópuríki geti ekki varið það. Í dag (11. janúar) segir breska blaðið The Telegraph að bresk hernaðaryfirvöld ræði við fulltrúa Þýskalands og Frakklands um að breskir hermenn, herskip og flugvélar taki þátt í að verja Grænland fyrir Rússum og Kínverjum. Það sé von Evrópuríkja að með aukinni viðveru þeirra á norðurslóðum takist þeim að fá Trump ofan af hugmyndum hans um að innlima Grænland sem hafi mikið strategískt gildi.
Bandarískur her kom hingað árið 1941 til að breska hernámsliðið gæti dregið saman seglin hér og einbeitt sér að átökunum við Þjóðverja á meginlandi Evrópu og við Miðjarðarhaf. Það var lífsnauðsynlegt í orðsins fyllstu merkingu fyrir Churchill að Bandaríkjamenn tækju þátt í að verja Norður-Atlantshafið.
Það sama á enn við og enn eru það aðeins Bandaríkjamenn og Bretar sem búa yfir nægum fælingarmætti til að tryggja frið í okkar heimshluta.