Kamala Harris ógnar Trump
Kamala Harris sagðist ætla að nýta sér reynsluna sem fyrrverandi saksóknari í Kaliforníu. Þar hefði hún lært að glíma við afbrotamenn, dæmda og undir ákæru,
Kannanir benda til þess að á 48 klukkustundum hafi afstaða kjósenda í Bandaríkjunum breyst á þann veg að Kamala Harris, frambjóðandi demókrata, hafi náð forskotinu sem repúblikaninn Donald Trump hafði gagnvart Joe Biden forseta áður en hann hætti baráttunni fyrir endurkjöri sunnudaginn 21. júlí.
Harris hóf kosningabaráttu sína 23. júlí og þá lá ljóst fyrir að hún hafði tryggt sér meirihluta meðal tæplega 4.000 fulltrúa á flokksþingi demókrata sem hefst í Chicago 19. ágúst.
Allt gengur þetta mun hraðar fyrir sig en álitsgjafar töldu fyrir brotthvarf Bidens. Átökin verða hörð næstu 100 daga fram að kosningunum og stóru orðin ekki spöruð. Harris sagðist ætla að nýta sér reynsluna sem fyrrverandi saksóknari í Kaliforníu. Þar hefði hún lært að glíma við afbrotamenn, dæmda og undir ákæru, Donald Trump væri einmitt í hópi slíkra manna.
Nú eru rifjuð upp ummæli sem J. D. Vance, varaforsetaefni Trumps, hafði um Kamölu Harris þegar hann lýsti henni sem „barnlausri kattarkonu“ í samtali við Tucker Carlson á meðan hann var á Fox-sjónvarpsstöðinni.
Í samtalinu árið 2021 sagði Vance að demókratar og olígarkar í atvinnulífinu stjórnuðu landinu með því að styðjast við barnlausar kattarkonur sem hefðu það sjálfar ömurlegt vegna þess kosts sem þær hefðu valið og vildu nú að líf allra annarra yrði jafn ömurlegt. „Þetta er einföld staðreynd. Lítum bara á Kamölu Harris,“ sagði hann.
Hann benti einnig á fulltrúadeildarþingmanninn Alexandriu Ocasio-Cortez og samgönguráðherrann Pete Buttigieg og sagði að öll framtíð demókrata réðist af barnlausu fólki og það væri fráleitt að fólk án hlutdeildar í framtíð landsins ætti að stjórna því. (Kamala Harris á tvö stjúpbörn.)
Þessi ummæli fara nú eins og eldur um sinu um leið og minnt er á að í Bandaríkjunum séu 42 milljónir einstæðra kvenna, þriðja hver bandarísk kona sé ógift og sjötta hver barnlaus.
Stærsti hluti einstæðra kvenna kýs demókrata. Í þingkosningunum 2022 kusu 68% þeirra demókrata og komu í veg fyrir að repúblikanar ynnu þann stórsigur sem þeim hafði verið spáð.
Kamala Harris stefnir ótrauð að því að ná til þessara kvenna og tryggja að þær verði ein af meginstoðum sigurs hennar á Trump. Hin meginstoð hennar verður meðal 46 milljóna blökkumanna í kjósendahópnum.
Myndin er af vefsíðunni Free Press og birtist þar með grein um að Biden hefði ekki sést opinberlega í viku,
Joe Biden hefur boðað að hann ávarpi bandarísku þjóðina í sjónvarpi í kvöld (24. júlí). Hann hefur ekki sést opinberlega í viku sem hefur orðið samsæriskenningasmiðum gott yrkisefni. Á samfélagsmiðlum fjölgar færslum um andlát hans jafnt og þétt.
„Að fari af stað orðrómur um heilsu Bidens er ekkert nýtt,“ segir Tristan Mendès France við Observatoire du conspirationnisme – athugunarstöð samsæriskenninga – við Le Figaro í dag. „Strax árið 2019 héldu öfgamestu jaðarmenn Qanon-hreyfingarinnar því fram að Joe Biden væri dauður og klón birtist í hans stað.“
Nýr kafli í stjórnmálalífi Bandaríkjanna er rétt að byrja.