24.8.2024 11:32

Kamala ákærir Trump

Það vekur ónot að lesa þessi orð, ekki vegna þess að þarna sé farið með staðlausa stafi í áróðursskyni heldur einmitt vegna þess að það er ekki gert. Orðin vísa til þess sem Trump hefur sjálfur sagt.

Hér var í gær vitnað í ræðu Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda bandarískra demókrata, fimmtudaginn 22. ágúst þegar hún tók við tilnefningu flokkssystkina sinna um að berjast um forsetaembættið við repúblikanann Donald Trump. Vitnað var í orð sem sneru beint að bandamönnum Bandaríkjanna innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Himinn og haf er þar á milli afstöðu hennar og Trumps.

Að sjálfsögðu skiptir mestu hvernig Kamölu tekst að höfða til bandarískra kjósenda, þeirra atkvæði ráða. Enn er mjótt á munum milli frambjóðendanna þótt Kamölu hafi tekist að eyða forskoti Trumps gagnvart Joe Biden og safna hálfum milljarði dollara í kosningasjóð á um einum mánuði.

Í greiningu á ræðum og ræðumönnum á flokksþingi demókrata í Chicago í vikunni hefur verið vakin athygli á að Kamala, sem venjulega klæðist bjartlitum drögtum, hafi lokakvöldið verið í dökkblárri buxnadragt við púltið. Hillary Clinton hafi hins vegar verið hvítklædd þegar hún ávarpaði þingheim. Þarna hafi allt verið með ráðum gert. Hillary talaði um kvenfrelsið og nauðsyn þess að brjóta glerþakið en Kamala birtist sem saksóknarinn gegn Donald Trump.

Screenshot-2024-08-24-at-11.31.17Kamala Harris flytur mál sitt gegn Donald Trump.

Í upphafi ræðu sinnar sagði Kamala Harris að enginn hefði getað séð fyrir að líf hennar þróaðist á þann veg að hún stæði þarna á þessari stundu og axlaði þá ábyrgð sem henni væri nú falin. Enn sannaðist að Bandaríkin væru land frelsis og tækifæra fyrir þá sem sæktu fram. Hún hefði ákveðið að gera það sem lögfræðingur og saksóknari til að veita þeim lið sem ættu undir högg að sækja. Nú tæki hún að sér að gæta hags allrar þjóðarinnar.

Í þessum anda flutti hún mál sitt gegn Donald Trump og sagði hann í mörgu tilliti „alvörulausan mann“ en það myndi á hinn bóginn hafa „mjög alvarlegar“ afleiðingar ef hann næði kjöri sem forseti. Hann segðist ætla að veita öfgafullum ofbeldismönnum sem réðust á löggæslumenn við bandaríska þinghúsið frelsi. Hann segðist ætla að fangelsa blaðamenn, pólitíska andstæðinga og hvern þann sem hann liti á sem óvin. Hann segðist ætla að beita hermönnum gegn bandarískum borgurum.

Bað Kamala áheyrendur um að velta fyrir sér valdinu sem hann myndi hafa, einkum eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að sækja hann til saka fyrir afbrot. Utan rimla myndi Trump beita gífurlegu valdi forseta Bandaríkjanna, ekki til að bæta hag Bandaríkjamanna, ekki til að auka lífsgæði þeirra, ekki til að auka þjóðaröryggi heldur til að þjóna eina viðskiptavininum sem hann hefði nokkru sinni haft: sjálfum sér.

Það vekur ónot að lesa þessi orð, ekki vegna þess að þarna sé farið með staðlausa stafi í áróðursskyni heldur einmitt vegna þess að það er ekki gert. Orðin vísa til þess sem Trump hefur sjálfur sagt.

Hér hafa orðin löglaus og siðlaus verið notuð árum saman við mat á störfum stjórnmálamanna og annarra á opinberum vettvangi. Við ættum að bæta orðinu alvörulaus í þetta safn og nota það sem mælistiku til nánari skilgreiningar á því hvar við erum á vegi stödd og við hverju megi búast af þeim sem gera kröfu til trausts annarra.