Kallað á Sjálfstæðisflokkinn
Hér skal tekið undir með Grími Kamban þegar hann segir allt réttsýnt fólk að sjálfsögðu sjá að við svo búið megi ekki standa. Þjóðinni sé „lífsnauðsyn“ að Sjálfstæðisflokkurinn fái byr í seglin.
Eins og við er að búast er mikið rætt um landsfund sjálfstæðismanna í netheimum. Hér skal staðnæmst við það sem Geir Ágústsson segir 2. mars á blog.is og athugasemd Gríms Kamban við blogg Geirs.
Geir segist taka eftir því í bandarískri umræðu að sumir vilji síður tala um hægri-vinstri og frekar að tala um heilbrigða skynsemi, og þá sem eru á móti henni: (1) Karlmenn eigi ekki að keppa við kvenmenn í íþróttum, eða deila með þeim búningsklefa! (2) Landamæri eigi ekki að vera hriplek! (3) Taka eigi á óráðsíunni í opinberum fjármálum og minnka skattheimtuna! (4) Fyrst og fremst eigi að eyða auðlindum og verðmætaframleiðslu í eigin þegna og þá sem eiga um sárt að binda innanlands frekar en allt aðra!
„Ekki hægri-vinstri, heldur heilbrigð skynsemi og andstæða hennar,“ segir Geir og vonar að Guðrún Hafsteinsdóttir nýkjörinn flokksformaður hafi það að leiðarljósi.
Guðrún Hafsteinsdóttir flytur framboðsræðu sína á landsfundi 1. mars 2025.
Grímur Kamban segir Sjálfstæðisflokkinn vera alvöru flokk en í „hrikalegri krísu“. Fylgi flokksins sé alltof lítið, þar ríki forystukreppa og minnihluti hans í borginni sé „endalaus“, hann hafi aðeins fengið 19,4% í þingkosningunum 2024.
„Flokkur með jafn rosalega grasrót, heilan her af eldkláru fólki, og þessi sem við sáum á landsfundinum [2.100 skráðir fulltrúar] á að geta gert miklu margfalt betur,“ segir Grímur og síðan:
„Til samanburðar hélt hinn svokallaði „Flokkur fólksins“ 70 manna landsfund á dögunum sem var þó vel auglýstur gegnum endalausa skandala í aðdragandanum. Ef frá voru dregnir þingmenn þess „flokks“ og makar og þeir sem eru í stjórn flokksins og starfsmenn voru þar varla fleiri en 30 til 40 óbreyttir flokksmenn á „landsfundinum“. Það er svona eitt til tvö prósent af þeim fjölda sem var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina. Þrátt fyrir að það séu augljóslega fáir sem engir félagar í „Flokki fólksins“ samkvæmt þessu, engir innviðir og ekkert stjórnmálastarf og ekkert lýðræði í reynd því það er nánast enginn í „flokknum“ (og lýðræði yfir ekki stundað þar þó fólkið væri til staðar) fékk þessi vægast sagt vafasami eldhúsklúbbur Ingu Sæland 13,9 prósent atkvæða í þingkosningunum. Það er aðeins 5,5 prósentum minna en Sjálfstæðisflokkurinn. En „Flokkur fólksins“ sem er alls ekki stjórnmálaflokkur er nú bæði í ríkisstjórn og meirihluta í borginni.“
Hér skal tekið undir með Grími Kamban þegar hann segir allt réttsýnt fólk að sjálfsögðu sjá að við svo búið megi ekki standa. Þjóðinni sé „lífsnauðsyn“ að „Sjálfstæðisflokkurinn fái byr í seglin, vinni meirihluta í borginni næsta vor, felli sem fyrst núverandi ríkisstjórn og forði okkur frá því stórslysi fyrir lýðræðið og þjóðfélagið í heild sem gerist ef ekki verða bráðar breytingar og heilbrigð stjórnmálaöfl ná tökum á þjóðarskútunni“.
Guðrúnar Hafsteinsdóttur bíður mikið verkefni sem ekki verður leyst á einfaldan hátt ætli hún að ná þeim markmiðum sem hún boðaði í aðdraganda þess að hún var kjörin formaður.