20.12.2021 9:54

Kæld mjólk beint frá bónda í Krónunni

Þegar teknar verða ákvarðanir um nýtingu aukins fjár til áburðarkaupa á jafnframt að huga að nýsköpun og lífrænni framleiðslu.

Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem láta að sér kveða við framleiðslu á mun fleiri sviðum en almennt birtist almenningi vegna þess hve sala á afurðum þeirra er miðstýrð. Gróskan birtist neytendum þó sífellt betur.

Fyrir farsótt var til dæmis efnt til matarmarkaðar í Hörpu sem var ákaflega vel sóttur. Þar sköpuðust bein tengsl milli neytenda og bænda sem því miður hefur ekki verið unnt að rækta í tvö ár vegna COVID-19-faraldursins. Tengsl smáframleiðenda til sveita við neytendur hafa á hinn bóginn eflst með netsamskiptum.

Stórverslunin Krónan sýnir smáframleiðslu og nýsköpun bænda áhuga eins og sannaðist enn á ný laugardaginn 18. desember þegar sala á gerilsneyddri og ófitusprengdri kúamjólk hófst í verslun Krónunnar í Lindum í Kópvogi. Varan er seld undir merkinu Hreppamjólk frá bænum Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Feðgin þar, Arnar Bjarni Eiríksson og Margrét Hrund Arnarsdóttir, hafa undirbúið verkefnið og tryggt sér öll leyfi sem ekki er áhlaupaverk á þessum vettvangi. Eftirlit með matvælaframleiðslu þrengir í mörgu tilliti verulega að þeim sem vilja stunda smáframleiðslu.

1315327Margrét Hrund Arnarsdóttir frá Gunnbjarnarholti við Hreppamjólkur-sjálfsalann í Krónunni (Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson).

Sölunni á mjólkinni í Krónunni er hagað á þann hátt að settur hefur verið upp 180 lítra mjólkurtankur með kælibúnaði. Við tankinn er sjálfsali með kortalesara og tappa viðskiptavinir mjólkina á sínar eigin flöskur.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir í Morgunblaðinu í morgun (20. des.) að Hreppamjólkin sé „frábært dæmi“ um hvernig unnt sé að gera vöru og umbúðir hennar umhverfisvænni og minnka kolefnisspor. „Fjölnota glerumbúðir er hringrás sem við viljum sjá í fleiri vöruflokkum,“ segir hún.

Í sama tölublaði Morgunblaðsins segir á forsíðu frá því að Svandís Svavarsdóttir landbúnaðarráðherra telji nauðsynlegt að auka fjárveitingar til landbúnaðar vegna hækkunar áburðaverðs. Um heim allan glíma bændur við vanda vegna þessarar hækkunar.

Í samanburði við nágrannaþjóðir stöndum við illa þegar litið er til lífrænnar landbúnaðarframleiðslu. Í Evrópu er þessi framleiðsla að færast frá því að vera á jaðrinum til þess að verða drifkraftur umbóta í þágu heilbrigðis- og loftslagsmarkmiða. Landbúnaðarstefna hér verður að taka mið af þróuninni í þessa átt. Verði það ekki gert eykst krafa um aukinn innflutning á lífrænt framleiddum landbúnaðarafurðum.

Þegar lífræn framleiðsla er vottuð er meðal annars litið til áburðarnotkunar. Þar eru mörg tækifæri til umbóta hér á landi meðal annars með aukinni notkun á búfjáráburði.

Þegar teknar verða ákvarðanir um nýtingu aukins fjár til áburðarkaupa á jafnframt að huga að nýsköpun og lífrænni framleiðslu.

Útgjöld vegna áburðar leggjast þungt á sauðfjárbændur. Hátt afurðaverð fyrir lambakjöt fæst sé öll framleiðslukeðjan rekjanleg á einfaldan hátt eins og auðvelt er með nútímatækni. Úr því að unnt er að kaupa kælda mjólk beint frá bónda í Krónunni ætti einnig að vera unnt að kaupa þar lífrænt ræktað lamb beint frá bónda.