22.8.2021 12:16

Kabúl-flugvöllur í brennidepli

Allt gerist þetta í beinni útsendingu til heimsins alls og afhjúpar enn frekar hve illa Joe Biden og mönnum hans er treystandi til skynsamlegra og skjótra ákvarðana á hættustund.

Tony Blair var forsætisráðherra Verkamannaflokksins í Bretlandi þegar ráðist var á Afganistan árið 2001 og síðan Írak. Stóð hann þá í fremstu röð þeirra sem færðu rök fyrir nauðsyn hernaðaraðgerðanna. Nú kveður hann sér hljóðs með harðri gagnrýni á hvernig Bandaríkjastjórn undir forsæti Joes Bidens stendur að framkvæmd ákvörðunar um að kalla herlið Bandaríkjanna frá Afganistan.

Blair lýsir brotthvarfi bandaríska hersins sem „sorglegu, hættulegu og ónauðsynlegu“. Á vefsíðu sinni sagði hann laugardaginn 21. ágúst að ákvörðunin í Washington hefði verið tekin í anda heimskulega slagorðsins um að binda verði enda á „eilífðar stríðin“ (e. the forever wars).

Hann sagði að brottflutningurinn væri fagnaðarefni fyrir íslamska vígamenn í heilögu stríði – jihad. Bretum væri siðferðliga skylt að halda áfram úti herafla í Afganistan þar til allir hefðu verið fluttir þaðan sem hefðu þörf fyrir það. Bretar yrðu að veita þeim skjól utan Afganistans sem hefðu aðstoðað þá og staðið með þeim, þeir ættu núna kröfu til þess að Bretar stæðu með þeim.

Þegar litið er til öngþveitisins við Kabúl-flugvöll, einu útgönguleið tugþúsunda manna sem vilja komast frá Afganistan, og yfirlýsinga ráðamanna vestrænna ríkja sem eru í sama anda og Blairs er ljóst að störfum vestrænna hermanna er alls ekki lokið í Afganistan. Enn kann þeim að verða skipað að grípa til vopna.

Um 4.500 bandarískir hermenn eru á Kabúl-flugvelli og nokkur hundruð breskir hermenn. Óttast er að hryðjuverkasveitir sem njóta velvildar Talibana, vígamenn al-Kaída eða Ríkis Íslams (ISIS) nýti ástandið á og við flugvöllinn til árása á saklaust fólk og útlendinga fyrir það eitt að vilja komast úr landi. Hefji einn vígamannanna skothríð kann allt að fara í bál og brand.

Allt gerist þetta í beinni útsendingu til heimsins alls og afhjúpar enn frekar hve illa Joe Biden og mönnum hans er treystandi til skynsamlegra og skjótra ákvarðana á hættustund. Þeir einir hafa aflið til að snúa vörn í sókn á afgerandi hátt.

Afghanistan-conflictspain-planeÁ leið frá Kabúl-flugvelli.

Sé leitað pólitískra lausna á málinu verður það ekki gert án þess að leita samstarfs við Rússa, Kínverja og Tyrkja að sögn sérfræðinga og jafnvel Írana. Pakistanar standa með Talíbönum og vilja ekki styggja hryðjuverkahópa af ótta við að allar breytingar þeim óhagstæðar í Afganistan veiki stöðu þeirra gagnvart erkifjendunum, Indverjum.

Ástandið er því mjög eldfimt um þessar mundir í Kabúl og vantraustið í garð forystuhæfni Joes Bidens og manna hans eykur á hættuna.

Í umræðum um stöðu Talibana ber þó æ meira á þeirri skoðun að áhrif 20 ára veru vestræns herliðs í Afganistan verði ekki afmáð. Frelsisneisti og vitneskja um líf án stjórnar íslamskra bókstafstrúarmanna skilji eftir sig spor sem hafi áhrif til framtíðar og móti viðhorf nýrrar kynslóðar Afgana. Þar sé kannski að finna vonina um betri framtíð þeirra sem í Afganistan búa.

Fréttirnar frá Afganistan verða skuggalegri með hverri klukkustundinni sem líður án þess að tryggð sé friðsamleg útgönguleið fyrir þá sem þaðan vilja komast. Blóðbað er á næsta leiti finnist sú leið ekki.