5.9.2017 11:13

Jyllands-Posten lýsir eigin sálarlífi

Leiðarinn var skrifaður til að fullvissa lesendur blaðsins um að JP hefði ekki gengið á svig við ástæðuna fyrir eigin tilveru heldur mundi blaðið áfram verða „liberal avis“, það er frjálslynt blað.

Laugardaginn 2. september birtist leiðari í Jyllands-Posten (JP)sem hefur notið mestrar útbreiðslu „alvarlegri“ blaða í Danmörku ásamt Politiken og Berlingske Tidende. Blaðið er ekki eins íhaldssamt og Berlingske og ekki eins langt til vinstri og Politiken en sömu eigendur eru að JP og Politiken.

Leiðarinn var skrifaður til að fullvissa lesendur blaðsins um að JP hefði ekki gengið á svig við ástæðuna fyrir eigin tilveru heldur mundi blaðið áfram verða „liberal avis“, það er frjálslynt blað.

Ástæðan fyrir því að ritstjórnin sá ástæðu til að árétta tilverugrundvöll blaðsins var gagnrýni sem birtist meðal annars í orðum verðandi forstjóra Berlingske sem hafði sagt að Politiken hefði „gleypt“ Jyllands-Posten og hann hefði áhyggjur af „sál JP“. Þá sagði Ole Birk Olesen, samgönguráðherra Dana, á Facebook að með vísan til ólíks sjónarhorns blaðanna þriggja, BerlingskePolitiken og JP ættu Danir fræðilega að búa við fjölbreytta fjölmiðlun, það hefðu ekki allir sama sjónarhorn enda væri tilverugrundvöllurinn ekki sá sami hjá þeim öllum. Svona væri þetta fræðilega en í raun væri myndin önnur og til dæmis þann dag sem ráðherrann skrifaði færslu sína gæti forsíða JP einfaldlega verið forsíðan á Politiken.

Ráðherrann er fyrrverandi blaðamaður og hann vísaði til forsíðufyrirsagnar á JP um skattatillögur ríkisstjórnarinnar þar sem stóð: Løkkes skatteudspil gavner de vellønnede danskere mest – Skattatillögur Løkkes [forsætisráðherra] gagnast vellaunuðum Dönum best. 

Af þessu tilefni vildi ritstjórn JP létta áhyggjum af lesendum sínum með því að segja að ekkert væri að sál blaðsins eða tengslum við hana á líðandi stundu. Þá sagði: „Dagblað er ekki aðeins dagblað; það er einnig hluti af hugmyndafræðilegu verkefni sem miðar að því að hafa áhrif á aðra í samræmi við útgáfugrundvöllinn. En dagblað mótast fyrst og síðast af blaðamennsku sem að því er Jyllands-Posten varðar á að stuðla að miðlun upplýsinga, frjálsum umræðum og lýðræði með aðhaldi gagnvart valdamönnum.“

Lögð er áhersla á blaðið eigi að bera þess svip að engir séu vinir þess og það geti beint örvum sínum í allar áttir sé þess þörf. Á vettvangi blaðsins greini menn á milli news og views segir á nydansk svo að notuð séu orð leiðarans þegar áréttuð eru skilin milli frétta og skoðana.

Hér skal ekki vitnað frekar í þennan leiðara. Hann á ekki síður erindi til þeirra sem búa við íslenska fjölmiðlun en lesenda JP. Á vefsíðu blaðsins geta lesendur gert athugasemdir við leiðarann eins og annað efni og vekur undrun hve margir segjast hafa fengið nóg af vinstri slagsíðu á blaðinu og sagt upp áskriftinni.

Fyrsta athugasemdin hefst á þessum orðum:

„Eftir að hafa greitt áskrift í 30 ár verð ég að segja að þetta er aumur leiðari. JP er ekki lengur borgaralegt blað, það er skoðanalaus prentgripur sem feykist með vindinum. Fyrir 20 árum barðist JP fyrir borgaralegum sjónarmiðum en undan þeirri afstöðu fjaraði. Borgaralegt blað krefst borgaralegra blaðamanna sem skrifa í borgaralegu samhengi. Þetta gerði JP fyrir 20 árum en ekki lengur.“