18.10.2022 9:36

JP fagnar Svíum í raunheimi

Jyllands-Posten  segir það núverandi kynslóð sænskra stjórnmálamanna til tekna að hún geri blekkingarlaust upp við ójarðbundna draumóra forvera sinna.

Jyllands-Posten (JP) birtir mánudaginn 17. október leiðara um nýju borgaralegu ríkisstjórnina í Svíþjóð. Hennar bíði enginn dans á rósum. Hún þurfi ekki aðeins að takast á við daglegar krísur eins og allar ríkisstjórnir. Hún verði einnig að taka til hendi vegna årtiers hovedløs udlændingepolitik, der har forvandlet Sverige til et skræmmebillede i Europa – áratugalangt stjórnleysi í útlendingamálum sem hafi breytt Svíþjóð í grýlu í Evrópu.

920fd80c-57fb-4201-b3f9-74bb0b32e6fcNý ríkisstjórn Svíþjóðar kynnt þriðjudaginn 18. október 2022.

Nýja ríkisstjórnin lítur til Danmerkur í þessu efni eins og allir borgaraflokkarnir gerðu í kosningabaráttunni, segir danska blaðið. Hún telji einfaldlega stefnu Dana í útlendingamálum góða fyrirmynd. Það sé ekki undarlegt. Tíðni morða í Svíþjóð sé meiri en annars staðar í Evrópu. Glæpagengi, aðlögunarvandi innflytjenda og skautun ríki nú í þjóðfélagi sem áður var talið öruggt sem folkehemmet. Hreinræktuð glæpamennska sé hin hliðin á medalíunni sem allt of lengi hafi verið fegruð með lygum, einnig af fjölmiðlum. Einu besta og einsleitasta samfélagi í heimi hafi verið unnið tjón af stjórnmálamönnum sem þurftu ekki sjálfir að gjalda fyrir að gera tilraun með Svíþjóð sem mannúðlegt stórveldi. Af einskærri góðmennsku hafi venjulegum Svía verið leyft að súpa seyðið af því.

Nú komi það í hlut borgaralegu flokkanna að leiða Svía að nýju inn í raunheiminn. Þeir gangi líka hreint til verks. Á næstu fjórum árum eigi að verða þáttaskil, það eigi að fækka kvótaflóttamönnum úr 6.400 í 900. Þessi ákvörðun taki mið af danskri útlendingastefnu.

Minnt er á að reynsla Svía af ákvörðunum borgaralegra ríkisstjórna í útlendingamálum sé ekki algóð. Íhaldsmaðurinn og forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt hafi talið sænsku skógana nógu stóra til að þola að landamærin yrðu galopnuð. Hann hafi fylgt fram stefnunni sem endaði með sænskum harmleik. Nú sé það arftaka hans, Ulfs Kristerssons, íhaldssams forsætisráðherra að bæta fyrir það sem flokkur hans gerði áður rangt.

Þá segir blaðið að það sé ekki aðeins í útlendingamálum sem Svíar segi nú skilið við fortíðina. Sama megi segja um aðildina að NATO, með henni sé horfið frá langri hefð Svía að velja sér sína eigin leið. Sverige er ved at normalisere sig selv, segir blaðið bæði í innflytjenda- og öryggismálum enda gefi raunveruleikinn Svíum ekki færi á að líta á heiminn eins og þeir ímyndi sér hann. Einnig þeir verði að sætta sig við hvernig hann sé í raun.

Það sé núverandi kynslóð sænskra stjórnmálamanna til tekna að hún geri svo blekkingarlaust upp við ójarðbundna draumóra forvera sinna.

***

Það er óskandi að boðskapur um nauðsynlega varúð í útlendingamálum smitist inn í huga vinstrisinnaðra alþingismanna, fréttamanna ríkisútvarpsins og fjölmiðla almennt og stjórnenda og starfsmanna Rauða kross Íslands. Læri menn af eigin reynslu og annarra er auðveldara að takast af skynsemi á við verkefni líðandi stundar í raunheimi.