17.4.2020 11:12

Jón Þór framkvæmdi plott Sigmundar Davíðs

Með því að fjölmenna í þingsalinn þvert á bannreglu sóttvarnalæknis og senda Jón Þór Ólafsson í ræðupúlt til að vekja máls á brotinu náðist það markmið formanns Miðflokksins.

Þingfundur stóð í um 3 mínútur fimmtudaginn 16. apríl. Til hans var boðað að ósk stjórnarandstöðunnar til að hún gæti rætt við ráðherra á tímum COVID-19-faraldursins. Voru sex ráðherrar til að svara spurningum þingmanna. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, taldi þingmenn í salnum í upphafi fundar, sagði þá 26 og þar með væri brotið gegn banni sóttvarnayfirvalda um að ekki mættu fleiri en 20 koma saman. Mátti skilja stutta ræðu þingmannsins á þann veg að stjórnarandstöðuþingmenn hefðu fjölmennt til að brjóta gegn banninu. Við svo búið sleit Steingrímur J. Sigfússon þingforseti fundi. Þetta er einstakt atvik í þingsögunni og því ástæða til að skoða það hér öðru sinni í ljósi upplýsinga sem birtust undir kvöld fimmtudaginn 16. apríl.

Á mbl.is var rætt við Steingrím J. Sigfússon eftir fund hans með þingflokksformönnum fyrr á fimmtudeginum. Orðrétt sagði hann:

„Þetta var gagnlegt og allt í góðu. Ég hef fulla trú á að við jöfnum okkur á þessu og horfum fram á veginn og þegar kemur að því að taka næstu stóru aðgerðamál fyrir verði það unnið í góðu samstarfi.“

Á vefsíðunni visir.is birtist að kvöldi 16. apríl ítarleg frásögn reist á tölvusamskiptum stjórnarandstöðuþingmanna og þingforseta miðvikudaginn 15. apríl.

Steingrímur J. sendi bréf og lagði til að þingfundur yrði 10.30 fimmtudaginn 16. apríl, á dagskrá fundarins yrðu óundirbúnar fyrirspurnir, hugsanlega síðan umræður um störf þingsins. „Þar á eftir kæmu nokkur stjórnarfrumvörp sem bíða 1. umræðu og eru með lægstu númerin [eru elst],“ segir í bréfi þingforseta sem kallaði eftir athugasemdum.

Fr_20180501_085503Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, spyr: „Eru stjórnarmálin sem fara í 1. umræðu covid mál? Eru þetta mál sem er samstaða um? Fær stjórnarandstaðan þá þingmannamál á dagskrá sem eru ótengd covid?“

Steingrímur J. ítrekar að dagskrá sín sé í samræmi við það sem rætt hafi verið deginum áður. „Hér er eingöngu um það að ræða að úr því það er þingfundur á annað borð þá verði nokkrum stjórnarfrumvörpum sem bíða 1. umræðu komið til nefndar og af stað í þinglega meðferð [...] ég spyr í allri vinsemd hvort ekki megi fallast á að með svona dagskrá sé tekið sanngjarnt tillit til málefnalegra óska og aðstæðna?“

Þá kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, til sögunnar og segir:

„Þegar sjs [Steingrímur J. Sigfússon] segir ,,í fullri vinsemd“ er hann að gera eitthvað af sér. Það væri betra að sleppa fundi alveg en að hrúga einhverjum stjórnarmálum inn í nefndir.“

Með því að fjölmenna í þingsalinn þvert á bannreglu sóttvarnalæknis og senda Jón Þór Ólafsson í ræðupúlt til að vekja máls á brotinu náðist það markmið formanns Miðflokksins „að sleppa fundi alveg“ á þingi. Að kannast ekki við plottið en skella sökinni á þingforseta er í samræmi við annað hjá stjórnarandstöðunni sem getur lamað alþingi á þennan hátt til 4. maí. Um sama leyti í fyrra tók Sigmundur Davíð þingið í gíslingu með vitlausa málþófinu um þriðja orkupakkann. Um Pírata og Miðflokkinn má segja: Þetta er allt sama tóbakið!