18.10.2019 10:26

Jón Ásgeir frá Fréttablaðinu

Sumarið 2002 seldi Gunnar Smári Egilsson, núv. forystumaður Sósíalistaflokks Íslands, Fréttablaðið með leynd til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar nú hefur Helgi Magnússon eignast það.

Frá því er skýrt á vefsíðu Fréttablaðsins í dag (18. október) að Helgi Magnússon og fleiri aðilar hafi keypt helmings eignarhlut 365 miðla í Torgi ehf. Torg er útgáfufélag Fréttablaðsins og starfrækir meðal annars vefmiðilinn frettabladid.is.

Í fréttinni er minnt á að Helgi hafi fyrr á þessu ári keypt helmingshlut í Torgi. Þá segir:

„365 miðlar hafa nú selt allt hlutafé sitt í félaginu. 365 miðlar eru í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur en hún hefur, ásamt eiginmanni sínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, starfrækt fjölmiðla á Íslandi síðustu 16 ár, þar á meðal Stöð 2, Bylgjuna og vísir.is sem voru seldir til Sýnar í lok árs 2017.“

Sumarið 2002 seldi Gunnar Smári Egilsson, núv. forystumaður Sósíalistaflokks Íslands, Fréttablaðið með leynd til Jóns Ásgeirs. Var ekki skýrt frá eigendaskiptunum fyrr en fyrir þingkosningar 2003 þegar blaðið skipaði sér við hlið Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Sameiginlegur óvinur þeirra var Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn. Atlagan misheppnaðist og hélt stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áfram að kosningum loknum en Davíð og Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, ákváðu að Halldór tæki við af Davíð sem forsætisráðherra á miðju kjörtímabilinu. Á tíma Baugsmálsins svonefnda beitti Jón Ásgeir blaðinu sér í hag.

64d423a20dede9435a878e2ea91705b986dad515f4565dbb573040267508218e_713x0_1571394258179Fréttablaðið birti þessa mynd af Helga Magnússyni, nýjum eiganda sínum, þegar hann eignaðist helming blaðsins í júní 2019. Nú hefur Helgi eignast það allt.

Undanfarin ár hafa Kristín Þorsteinsdóttir, sem á sínum tíma var blaðafulltrúi Jóns Ásgeirs, og Ólöf dóttir hennar stjórnað fjölmiðlastarfsemi á vegum 365 miðla. Kristín hvarf frá fyrirtækinu fyrir skömmu og Ólöf lætur af störfum ritstjóra Fréttablaðsins í dag en við tekur Jón Þórisson lögfræðingur. Hann er fyrrverandi forstjóri VBS fjárfestingabanka og aðstoðarforstjóri Íslandsbanka. Hann var í sumarstarfi um tíma á Morgunblaðinu og skrifar dálka í viðskiptablað þess. Davíð Stefánsson er fyrir sem ritstjóri Fréttablaðsins.

Fyrirhugað er að sameina rekstur Torgs og Sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar, þegar Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd hafa fjallað um samrunann, sem er háður samþykki þessara stofnanna.

Þetta eru stórtíðindi á íslenskum fjölmiðlamarkaði þar sem prent- og vefmiðlar eru reknir með tapi.

Helgi Magnússon varð 70 ára í ársbyrjun 2019 og gaf þá út ævisögu sína, Lífið í lit, sem Björn Jón Bragason skráði. Þar er rifjað upp að Helgi var einn af stofnendum ESB-flokksins Viðreisnar í maí 2016 og tók sæti í fjáröflunarnefnd flokksins.

Helgi er sannfærður um að unnt sé að semja við ESB með fyrirvörum eða undantekningum af því að Danir fengu slíkan samning fyrir tæpum 40 árum. Í ævisögunni leggur Helgi hvað eftir annað áherslu á að gagnvart ESB hafi skapast fordæmi sem sýni að fært sé að taka upp evru einhliða, það er án þess að ganga í sambandið. Að ESB-aðildarsinni boði þetta er athyglisvert. Þegar vakin var athygli á þessari leið af Sjálfstæðisflokknum fyrir þingkosningarnar í apríl 2009 blandaði sendiherra ESB á Íslandi sér í kosningabaráttuna og sagði að þetta yrði aldrei liðið.