5.12.2017 10:35

Jólin fá að nýju sess í Hvíta húsinu

Trump ákvað að hætta hlutleysinu sem fólst í orðunum Happy holidays (gleðilega hátíð) og Season´s Greetings (tímamótakveðjur) sem Obama notaði. Trump hallar sér að kristnu kveðjunni Merry Christmas (gleðileg jól).

Í Frakklandi deila menn um hvort setja megi upp jötu með Jesúbarninu í ráðhúsum eða á öðrum opinberum stöðum á aðventunni. Andstaðan er rökstudd með því að í Frakklandi sé algjör aðskilnaður á milli þess veraldlega og trúarlega. Ekkert sem snerti trúarbrögð eigi erindi á opinbera staði.

Í Bandaríkjunum beinist athygli að opinbera jólakortinu sem forsetafjölskyldan sendir úr Hvíta húsinu til samstarfsmanna, vina og vandamanna. Trump-fjölskyldan hefur kveðjuna með öðru sniði en Obama-fjölskyldan.

Trump ákvað að hætta hlutleysinu sem fólst í orðunum Happy holidays (gleðilega hátíð) og Season´s Greetings (tímamótakveðjur) sem Obama notaði. Trump hallar sér að kristnu kveðjunni Merry Christmas (gleðileg jól).

„Gleðileg jól og farsælt nýtt ár“ stendur á kortinu sem Trump, Melina kona hans og 11 ára sonur þeirra Barron, skrifa undir. Barron er eina barn Trumps sem býr í Hvíta húsinu.

Hér má sjá jólakort Trump-fjölskyldunnar til vinstri og Obama-fjölskyldunnar til hægri.

Í tilefni af þessu segja bandarískir fjölmiðlar að kristin jól hafi að nýju fengið sinn sess í Hvíta húsinu. Rifjað er upp að Trump hafi oftar en einu sinni lýst óánægju yfir jólakorti Obama-fjölskyldunnar sagt það einkennast af „alltof miklum pólitískum rétttrúnaði“. Í kosningabaráttunni lofaði Trump að setja orðið christ (kristur) að nýju inn í orðið christmas en margir skrifa aðeins xmas.

Jólakort Donalds Trumps var sýnt opinberlega í fyrsta sinn mánudaginn 4. desember, sama dag og jólaskrautið í Hvíta húsinu var kynnt. Melina Trump gerði það með því að birta myndskeið á Twitter sem sýnir hvernig hún hefur skreytt forsetabústaðinn.  Þar er að finna meira 12.000 skrautmuni, rúmlega 305 metra af skrautveifum og 53 jólatré.

Melina Trump umkringd jólaskrauti í Hvíta húsinu.

Talið er að um 25.000 gestir heimsæki Hvíta húsið á aðventunni og njóti þess að sjá skreytingarnar. Allt vekur þetta að sjálfsögðu umtal og deilur eins og annað sem snertir Trump. Pólitísk staða hans er í nokkurri andstöðu við skrautið í Hvíta húsinu.

Hægt og sígandi þrengist hringurinn í kringum Trump vegna rannsóknarinnar á Rússatengslunum í kosningabaráttunni og áður en hann varð forseti. Hvort og hvernig honum tekst að brjótast út úr hringnum kemur í ljós.