Jól á stríðstímum
Skjólið og friðurinn sem María fékk í fjárhúsinu þegar hún fæddi Jesúbarnið minnir á að hvarvetna geta menn skapað sér friðarskjól leiti þeir leiða til þess.
Það er ekki friðsamlegt í veröldinni um þessi jól, síst af öllu á þeim slóðum þar sem fjárhúsið stóð á Betlehemsvöllum.
Friðurinn var rofinn þar 7. október 2023 þegar hryðjuverkamenn undir merkjum Hamas streymdu út úr Gaza inn í Ísrael til að drepa alla sem á vegi þeirra voru eða taka í gíslingu.
Nú er Gaza í rúst, tugir þúsunda hafa fallið fyrir vopnum Ísraela. Vopnahlé strandar enn á að gíslar Hamas fái frelsi. Þar til það gerist eira Ísraelar engu.
Eldurinn sem Hamas-liðar kveiktu að undirlagi klerkaveldis Írana, sem vill eyða Ísraelsríki, varð að miklu ófriðarbáli. Það hefur gjörbreytt stjórnmálum og landafræði, geópólitk, á svæðinu.
Ísraelar hafa hernaðarlega yfirburði. Þeir hafa hrakið Hezbollah-hreyfinguna frá Líbanon. Þar var hún vopnum búin með stuðningi Írana í eyðingarstríðinu gegn Ísrael. Hútar, skjólstæðingar Írana í Jemen, eiga um sárt að binda vegna árása Ísraela og bandamanna þeirra, Bandaríkjamanna og Breta.
Þá er það Sýrland. Eftir rúmlega hálfrar aldar harðstjórn Baath-flokksins og fjölskyldu Bashars al-Assads forseta ríkir nú frelsishugur í Sýrlendingum enda er forsetinn flúinn í faðm annars harðstjóra, Vladimirs Pútins.
Í dag, 24. desember, birtust fréttir um að mun mannfærri Úkraínuher beitti nú í fyrsta sinn eingöngu vélmennum og drónum gegn rússneska innrásarhernum á afmörkuðu svæði á vígvellinum. Í fyrsta skipti í hernaðarsögunni væri beitt fjarstýrðum farartækjum með stórskotabyssum og jarðsprengjum ásamt hjörð dróna gegn landher.
Rússar stóðu að baki þeim sem farið hafa halloka í Mið-Austurlöndum. Vegna þessara ófara og efnahagsþrenginga sverfir að Vladimir Pútin þegar aldarfjórðungur er frá valdatöku hans. Hvað sem um Pútin verður álíta nágrannar Rússa að áfram sýni Kremlverjar nágrönnum sínum ofríki. Eina leiðin til að halda þeim í skefjum sé að efla fælingarmátt og herstyrk þeirra sem vilja vernda frið og frelsi.
Hér höfum við séð að með hugviti og gerð varnargarða má verja byggð og mannvirki fyrir glóandi hraunstraumi. Sömu sögu er að segja um snjóflóðavarnir eins og lýst var í fréttum þegar minnst var snjóflóðsins mikla og þeirra sem létust í Neskaupstað fyrir hálfri öld.
Skjólið og friðurinn sem María fékk í fjárhúsinu þegar hún fæddi Jesúbarnið minnir á að hvarvetna geta menn skapað sér friðarskjól leiti þeir leiða til þess.
Skjólið felst þó ekki aðeins í ytri umgjörð heldur einnig í því að skapa með sér þá hugarró sem leiðir til innri friðar – viðurkenna að fortíðinni verði ekki breytt og að framtíðin sé óráðin. Takast verði á við það sem að höndum ber þegar það gerist en ekki mála skrattann á vegginn. Nú víkja myrkar hugsanir fyrir jólaljósunum – birtunni sem fylgir jólum í svörtu skammdeginu.
Gleðileg jól!