6.11.2017 11:02

Jóhannes Kr.: Íslendingar léttvægir í Paradísarskjölunum

Leynd var létt af svonefndum Paradísarskjölum kl. 18.00 sunnudaginn 5. nóvember. Skjölin gefa mynd af upplýsingum um einstaklinga og lögaðila í skattaparadísum.

Leynd var létt af svonefndum Paradísarskjölum kl. 18.00 sunnudaginn 5. nóvember. Skjölin gefa mynd af upplýsingum um einstaklinga og lögaðila í skattaparadísum. Þau sýna hvernig efnað fólk og alþjóðleg stórfyrirtæki nýta glufur í lögum. Um er að ræða gagnaleka úr lögmannsstofunni Appleby á Bermúda-eyjum og  úr Asiaciti-sjóðnum í Singapúr.  Þá eru í skjölunum  upplýsingar úr 19 fyrirtækjaskrám  á lágskattasvæðum eins og Möltu, Bermúda og Cayman eyjum.

Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung fékk gögnin í hendur og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavik Media og 96 fjölmiðlum í 67 löndum. Jóhannes Kr. Kristjánsson, forstjóri Reykjavik Media, sagði á vefsíðu fyrirtækisins sunnudaginn 5. nóvember að nöfn nokkurra tuga Íslendinga væri að finna bunkanum sem 13,4 milljónir skjala mynda.

Jóhannes Kr. segir:

„Ólíkt Panamaskjölunum er Ísland smátt í þessum gagnaleka. Nöfn íslendinga er að finna í gögnunum frá Appleby og einnig í fyrirtækjaskrá Möltu. Ekki hafa fundist nöfn íslenskra stjórnmálamanna í gögnunum en þar er hinsvegar að finna nöfn 126 stjórnmálamanna frá 47 löndum. Af norðurlöndunum er Ísland með fæstu nöfnin í gögnunum en norðmenn flest eða um eitt þúsund.  Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV mun fjalla um nokkur íslensk nöfn sem fundust í gögnunum næstkomandi þriðjudag.“

Þarna boðar Jóhannes Kr. hver verður uppistaðan í nýjum „beittum“ fréttaskýringaþætti sem ríkissjónvarpið „setur í loftið“ í fyrsta sinn að kvöldi þriðjudagsins 7. nóvember.

Samstarf Jóhannesar Kr. og ríkissjónvarpsins vegna Panamaskjalanna varð til þess sunnudaginn 3. apríl 2016 að sýndur var aukaþáttur af Kastljósi. Þar var sýnt hvernig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson missti fótanna í samtali við sænska sjónvarpsmenn og Jóhannes Kr. í upptöku 11. mars 2016.

Þessi mynd er úr Süddeutsche Zeitung til kynningar á Paradísarskjölunum. Spilakassinn vísar til einhvers sem nefndur er í skjölunum. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fær stóra mynd af sér vegna þess að samstarfsmanns er getið í skjölunum og þar er einnig sagt frá ávöxtun fyrirtækis í eigu Elísabetar II. Bretadrottningar.

Til að árétta mikilvægi og þýðingu þessara skjalarannsókna vísar Süddeutsche Zeitung við kynningu á Paradísarskjölunum núna í birtingu Panamaskjalanna með þessum orðum:

„Dabei tauchten die Namen von 140 Politikern und engen Vertrauten auf, darunter die Staatschefs Argentiniens und der Ukraine, Mauricio Macri und Petro Poroschenko. In Island führte die Veröffentlichung zum Rücktritt des Ministerpräsidenten Sigmundur Gunnlaugsson und zum Verzicht des Staatschefs Ólafur Ragnar Grímsson auf eine Wiederwahl.“

Þarna segir frá því að í Panamaskjölunum hafi verið að finna nöfn 140 stjórnmálamanna, þar á meðal forseta Argentínu og Úkraínu. Birting skjalanna hafi leitt til afsagnar Sigmundar Davíðs og til þess að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hætti við að bjóða sig fram til endurkjörs.

Um þetta má segja að hefði Sigmundur Davíð staðist áhlaupið í sjónvarpsviðtalinu sem sýnt var í aukaþætti af Kastljósi samhliða afléttingu á leynd yfir Panamaskjölunum hefði hann ef til vill setið áfram sem forsætisráðherra.

Að ofangreind skýring á því að Ólafur Ragnar bauð sig ekki fram til endurkjörs sé birt um heim allan í tilefni af birtingu Paradísarskjalanna er til marks um óvönduð vinnubrögð og viðleitni fjölmiðlamanna til að slá sér upp á kostnað annarra.

Hér á landi er nú hafin sérkennileg herferð til að þagga niður í þeim sem birta efni á Facebook án þess að nafns höfundar sé getið. Starfsmaður fjölmiðlanefndar ríkisins tekur meira að segja til máls um þetta léttvæga mál miðað við allt annað sem hér viðgengst í fjölmiðlun. Hvað á til dæmis að gera við ónafngreinda heimildarmenn sem halda áróðri að erlendum fréttastofum? Stuðla að óhróðri um íslenska menn og málefni um heim allan. Ætlar fjölmiðlanefnd að skipta sér af því?