14.9.2022 9:20

Jóhanna og Samfylkingin hverfa

Að sjálfsögðu er þetta ekki pólitísk viðskiptabrella hjá þeim félögum heldur telja þeir að þeim líði betur í flokknum eftir að nafnið sem þær Jóhanna og Margrét S. fengu samþykkt sé afmáð.

Í Viðskiptablaðinu sagði 10. september að innan grasrótar Samfylkingarinnar væru háværar raddir um að bæta þyrfti ímynd flokksins með því að segja skilið við Samfylkingar-nafnið og nefna flokkinn Jafnaðarflokkinn. Þetta væri alþekkt í viðskiptum.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins þriðjudaginn 13. september kom fram að Mörður Árnason og Kristján L. Möller, fyrrv. þingmenn Samfylkingarinnar, ætluðu að leggja fram tillögu á landsfundi flokksins undir lok október um nýja nafnið Jafnaðarflokkurinn.

Sagði Mörður að þar með vísaði nafn flokksins beint til stefnu hans. Nafnið Samfylking hefði „orðið til í umræðu um samrunann og síðar orðið formlegt nafn flokksins við stofnun hans,“ segir í greinargerð með tillögunni.

526278Margrét S. Björnsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir á landsfundinum 2013 þegar þær fengu nafnið: Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands samþykkt (mynd:mbl).

Nú 22 árum eftir stofnun flokksins er upplýst að honum hafi í raun aldrei verið formlega gefið nafn. Það var þó gert árið 2013 þegar Jóhanna Sigurðardóttir, þáv. forsætisráðherra, og Margrét S. Björnsdóttir, þáv. formaður framkvæmdastjórnar flokksins, lögðu fram og fengu samþykkta tillögu um að flokkurinn skyldi bera nafnið: Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Þegar fréttastofa ríkisútvarpsins spurði Mörð nánar um tilefni tillögu þeirra Kristjáns L. svaraði hann:

„Við erum ekki að þessu, ekki út af fyrir sig, til þess að ná í eitthvert nýtt fylgi, heldur erum við að þessu til að líða betur í flokknum, til að flokkurinn verði samkvæmari sjálfum sér hvað nafn og ásýnd varðar.“

Að sjálfsögðu er þetta ekki pólitísk viðskiptabrella hjá þeim félögum heldur telja þeir að þeim líði betur í flokknum eftir að nafnið sem þær Jóhanna og Margrét S. fengu samþykkt sé afmáð.

Þetta er í anda Kristrúnar Frostadóttur sem hefur lýst sig formann flokksins og boðað að hún vilji ekki sjá tvö helstu stefnumál Jóhönnu: ESB-aðildina og stjórnarskrármálið.

Atburðarásin í Samfylkingunni minnir á hugmyndafræðilegu upprætinguna og hreinsanirnar sem standa yfir í forystusveit Alþýðusambands Íslands undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur.