4.8.2021 9:42

Jafnaðarmenn eða sósíalistar?

Samfylkingin hefur undanfarið leitast við að skilgreina sig til vinstri við VG en þar rekst hún nú á Sósíalistaflokk Íslands.

Guðjón S. Brjánsson, fráfarandi þingmaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi, lýsti á dögunum áhyggjum sínum yfir örlögum Samfylkingarinnar í samtali við Kjarnann 2. ágúst sagði hann:

„Ég held að við höfum hvikað frá grundvallarstefnu jafnaðarmanna og verið alltof reikul og ekki nógu fókuseruð og einbeitt í grundvallarþáttunum. [...] Hvað sem veldur eru margir sem höggva í sama knérunn og Samfylkingin og jafnaðarmenn.“

Við blasir að Samfylking og Viðreisn keppa um fylgi þeirra sem vilja aðild Íslands að ESB. Varla er þar tekist á um „grundvallastefnu jafnaðarmanna“ þótt evrópskir jafnaðarmannaflokkar séu almennt miklir ESB-flokkar

78B0F540C641595CAB4F878ADB2DF9F208081692701768ECF97195F7A0EF76E9_713x0Myndin er af visir.is sýnir þá flokksleiðtogana Loga Einarsson og Gunnar Smára Egilsson í sjónvarpssal.

Allt frá því að Samfylkingin kom til sögunnar árið 2000 hefur ríkt spenna milli hennar og vinstri-grænna (VG) sem vildu ekki hinn mikla, sögulega samruna íslenskra vinstrimanna sem átti að felast í tilkomu Samfylkingarinnar. Misheppnaðasta ríkisstjórnin á öldinni er einmitt stjórn Samfylkingar og VG undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún skildi eftir sig opin sár, til dæmis í stjórnarskrármálinu fyrir utan ESB-aðildarumsókn í uppnámi.

Samfylkingin hefur undanfarið leitast við að skilgreina sig til vinstri við VG en þar rekst hún nú á Sósíalistaflokk Íslands og orðaskipti undanfarna daga benda til þess að Samfylking og Sósíalistaflokkurinn bítist á um sama fylgið. Hér verður stuðst við þeirra eigin orð:

Kjartan Valgarðsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, 29. júlí á Visir.is:

„Samfylkingin er stjórnmálasamtök verkalýðshreyfingarinnar. Jafnaðarhreyfingin á Íslandi er runnin af sömu rót og hreyfing launafólks, á sér sameiginlega sögu, sama upphaf og sömu hugsjónir. “

Sósíalistinn Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, á FB-síðu sinni 30. júlí:

„Ég verð að spyrja, hvar var Kjartan þá [þegar Dagur B. borgarstjóri hafnaði hvað eftir annað kröfum Eflingar vorið 2020], og aðrir Samfylkingarmeðlimir sem telja að flokkurinn sé „stjórnmálasamtök verkalýðshreyfingarinnar“? Ekki man ég eftir grein á Vísi frá Kjartani þá. Ég man ekki eftir svo mikið sem minnsta ávarpi eða kveðju til verkafólks í Eflingu frá einum einasta þingmanni, borgarfulltrúa eða forystumanneskju í Samfylkingunni.“

Hallgrímur Helgason, frambjóðandi Samfylkingarinnar, 3. ágúst á Twitter:

„Vonbrigði með lista Sósíalista í Rvk. Enginn úr verkalýðsstétt. Þetta er bara hin galandi millistétt eins og hjá okkur í Samfylkingunni. Kennarar, laganemar og listamenn... Öryrkjar, láglaunafólk og erlent verkafólk áfram ósýnileg í íslenskum stjórnmálum, nema hjá Ingu Sæland.“

Sósíalistinn Andri Sigurðsson svarar á Twitter 3. ágúst:

„Ég hélt að kratar væru svo málefnalegir. Bára Halldórsdóttir er auðvitað ekki öryrki samkvæmt þér, eða Elísabet Einarsdóttir? Þarna eru öryrkjar, atvinnulausir, láglaunafólk, innflytjendur, leigjendur, eftirlaunafólk, námsfólk og annað láglaunafólk.“