10.1.2020 11:20

Jaap Schröder

Minning um Jaap Schröder fiðluleikara

Sé nafn Jaaps Schröders  fiðluleikara slegið hér inn á leitarvél síðunnar má sjá að ég hafði tækifæri til að hitta hann oft á hinum ólíklegustu stöðum. Hann er jarðsunginn í dag við setrið Les Murs sem þau Agnes áttu í Frakklandi. Jaap dó á nýársdag, Ég minnist hans með virðingu og þökk og rifja upp góð kynni með þessum myndum og stuttri lýsingu á Les Murs.

AEfing-i-les-MursSkálholtskvartettinn; Svava Bernharðsdóttir, Sigurður Halldórsson, Jaap Schröder og Rut að æfingu í einu bókaherbergjanna í Les Murs.

Virkid-i-Les-MursVið síkið og virkisvegg Les Murs.

Vor-i-Les-MursVordagur í Les Murs.

Úr dagbók apríl 2006:

Kyrrð sveitarinnar er mikil í sólinni. Í lokuðum virkisgarði setursins með turnana sína fjóra birtist nútíminn í traktorum, bílum og sólstólum. Hvinur járnbrautarlesta, þegar þær þjóta fram hjá, rétt utan við austurhlið virkisveggjarins, raskar einng rónni en venst fljótt.

Í einu horni garðsins stendur dúfnahúsið, en þar höfðu bréfdúfur aðsetur á árum áður. Kannski truflaði kurrið í þeim ekki minna þá en lestirnar núna.

Fyrstu byggingar eru frá 1380. Afi frú Agnesar keypti les Murs á sínum tíma og hann flutti bókasafn sitt í eitt útihúsanna. Íbúðarhúsið, sem er mikið að vöxtum, er einnig hlaðið bókum. Dáist ég að fjölbreytileika safnsins.

Í svefnherbergi okkar má til dæmis finna nútíma bandarísk bókmenntaverk auk æviminninga af ýmsu tagi, meðal annars Sketches From a Life eftir George F. Kennan, sendiherra í bandarísku utanríkisþjónustu og höfund skeytisins fræga, sem kennt var við Mr. X, þegar það birtist í tímaritinu Foreign Affairs. Þar eru lögð drög að stefnu Bandaríkjastjórnar gegn Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þetta eru dagbókarbrot, mest um ferðalög. Af þeim má ráða, að Kennan hefði orðið liðtækur bloggari um heimsósómann.