18.1.2024 12:08

Ítök kvenna innan ESB

Politico áréttar að hér sé aðeins um enduróm af orðrómi að ræða, ekkert sé ákveðið um neitt af þessu enn sem komið er en svona tali diplómatar og aðrir áhugamenn um valdatafl á æðstu stöðum.

Í júní er gengið til kosninga á ESB-þingið og eftir þær ákveðið hverjir sitji í framkvæmdastjórn og æðstu embættum ESB næstu fjögur árin. Á vefsíðunni Politico er það reifað í dag (18. janúar) að ef til vill muni konur skipa æðstu embættin innan ESB:

Ursula von der Leyen frá Þýskalandi verði áfram forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Roberta Metsola frá Möltu verði forseti ESB-þingsins.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, verði forseti leiðtogaráðs ESB.

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, verði utanríkis- og öryggismálastjóri ESB.

Politico áréttar að hér sé aðeins um enduróm af orðrómi að ræða, ekkert sé ákveðið um neitt af þessu enn sem komið er en svona tali diplómatar og aðrir áhugamenn um valdatafl á æðstu stöðum. Ekkert sé unnt að útiloka og vissulega séu einnig áhrifamiklir karlar inni í myndinni.

Licensed-imageUrsula von der Leyen

Það eru þingflokkarnir á ESB-þinginu og skipting milli þeirra sem ræður hvernig embættum er deilt.

Talið er líklegt að forsetaembætti í framkvæmdastjórninni og á þinginu falli mið-hægri EPP-flokknum í skaut. Sósíalistar fái leiðtogaráðið og frjálslyndir utanríkis- og öryggismálin. Politico segir að skoðanakannanir sýni að fylgi flokka verði á þennan veg í komandi kosningum.

Þá ráði landafræðin einnig miklu við val á fólki í ESB-embætti: Austur-Evrópa fái Kallas, Vestur-Evrópa von der Leyen, Norður-Evrópa Frederiksen og Suður-Evrópa Metsolu. Þá megi bæta við þennan lista yfir valdamiklar konur Christine Lagarde, seðlabankastjóra Evrópu, frá Frakklandi og Nadiu Calviño, nýkjörnum bankastjóra Fjárfestingabanka Evrópu, frá Spáni.

Politico segir að verði niðurstaðan þessi skipi konur öll mikilvægustu embættin innan ESB.

Hér er þó alls ekki um beina braut fyrir Frederiksen og Kallas að ræða. Sumir sósíalistar telja danska forsætisráðherrann hafa fjarlægst sósíalismann um of, til dæmis með stefnu sinni í útlendingamálum. Þá er minnt á að Kallas hafi þótt of hörð í garð Rússa til að koma til álita sem framkvæmdastjóri NATO og innan ESB kunni svipað viðhorf að ríkja í hennar garð.

Nafn Mette Frederiksen var nefnt í fyrra þegar rætt var um arftaka Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO. Olli það tal töluverðri spennu innan danska Jafnaðarmannaflokksins og vangaveltum um arftaka hennar. Lauk því máli með því að Jens Stoltenberg tók í annað sinn að sér að sitja eitt ár í viðbót.

Í dönskum blöðum segir að allt sé á huldu um áhuga forsætisráðherrans á að verða forseti leiðtogaráðs ESB eða taka að sér nokkuð annað mikilvægt evrópskt embætti.

Hvað sem afstöðu Mette Frederiksen sjálfrar líður er sérkennilegt að nafn hennar skuli hvað eftir annað nefnt í sambandi við há embætti utan Danmerkur. Ítrekaður orðrómur gefur til kynna að hann sé ekki kveðinn niður af þunga.