29.10.2023 12:45

Ísraelsríki lýst sem „mistökum“

Slagorðið: From the river to the sea, Palestine will be free er slagorð sem heyra má í mótmælagöngum víða um heim núna.

Ebrahim Raisi, forseti Írans, sagði sunnudaginn 29. október að stöðugar sprengjuárásir Ísraela á Gaza „kynnu að neyða alla“ til að láta til skarar skríða. Íransstjórn stendur að Hamas hryðjuverkasamtökunum sem réðust inn í Ísrael 7. október og myrtu rúmlega 1.400 manns, flestir látinna eru börn. Síðan hafa Ísraelar látið sprengjum rigna yfir litlu hólmlenduna Gaza og ráðist inn í hana undanfarna sólarhringa til að gera út af við Hamas.

Íransstjórn sem styður Hamas fjárhagslega og hernaðarlega sagði hryðjuverkaárásina 7. október „vel heppnaða“. Stjórnin fullyrðir hins vegar að hún hafi ekki átt hlut að blóðbaðinu.

558888Ebrahim Raisi, forseti Írans, og Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, í forsetahöllinni í Íran. 

Laugardaginn 28. október sagði Herzi Halevi, herráðsformaður Ísraels, að ísraelski herinn hefði drepið „hundruð“ hryðjuverkamanna. Stríðsaðgerðirnar mögnuðust stig af stigi. „Markmið þessa stríðs krefst landhernaðar – bestu hermennirnir eru nú að störfum á Gaza.“

Sama dag sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að barátta Ísraela til að „uppræta illskuna“ væri „rétt að byrja“.

Ísraelar hafa í tæpar þrjár vikur búið sig undir það stig hernaðarins sem nú er sagt frá í fréttum. Talið er að þeir hafi farið sér hægt af ótta við að Íranir og staðgenglar þeirra í Mið-Austurlöndum létu að sér kveða. Hezbollah-samtökin, leppar Íransstjórnar, fara með öll ráð í Suður-Líbanon. Þau ráða yfir tugum þúsunda flugskeyta sem skjóta má á skotmörk í Ísrael. Spennan þar er mikil.

Bandaríkjastjórn hefur sent tvær flotadeildir undir forystu flugmóðurskipa inn á Miðjarðarhaf til að sýna að hún geti beitt gífurlegu hervaldi blási Íransstjórn til stríðs við Ísraela en hún vill afmá Ísrael af landakortinu.

Slagorðið: From the river to the sea, Palestine will be free er slagorð sem heyra má í mótmælagöngum víða um heim núna. Í grunninn felst í orðunum að Palestínuríki eigi að ná frá Jórdaná að Miðjarðarhafi, það er yfir svæðið þar sem nú er Ísraelsríki. Gyðingar segja slagorðið mótað af gyðingahatri. Sjálfsákvörðunarréttur gyðinga sé að engu hafður og þeir skuli hraktir frá heimkynnum forfeðra sinna. Andstaðan við tilvist Ísraels á stuðningsmenn hér eins birtist í dag í grein Sigurðar Skúlasonar, eftirlaunaþega, fyrrv. leikara, á Vísi:

„Mistök Sameinuðu þjóðanna með því að samþykkja árið 1947 að Gyðingar fengju land í Palestínu eru einhver mestu afglöp sögunnar.,“

Það eru þessi „mistök“ sem krafist er að séu leiðrétt með því að afmá Ísrael. Sé litið fram hjá þessum kjarna deilunnar sem leiðir nú enn til blóðugra átaka og hörmunga á Gaza forðast menn raunveruleikann. Af 193 aðildarlöndum SÞ viðurkenna 138 ríki Palestínu undir stjórn heimastjórnarinnar (PA) sem ekki hefur völd á Gaza, 165 ríki viðurkenna Ísrael. Árið 2011 tók Ísland upp stjórnmálasamband við PA og Svíþjóð árið 2014. Önnur Evrópuríki hafa ekki viðurkennt PA með stjórnmálasambandi. Noregur hefur til dæmis ekki gert það.

Hamas hóf þetta stríð og Ísraelar hafa rétt til sjálfsvarnar. Hamas er ekki málsvari Palestínumanna og það er málstað Palestínumanna í hag að á það sé minnt. PA á engin ítök á Gaza og vill ekkert hafa með Hamas að gera þótt Eiríkur Bergmann Einarsson prófessor segi í fréttum ríkisútvarpsins að viðurkenning Íslands á PA sé viðurkenning á Hamas. Hve langt á að ganga hér til að klína Hamas-stimpli á alla Palestínumenn?