7.10.2024 14:21

Ísrael og leiksoppar Írana

Alls staðar þar sem Íranir hafa staðið að baki óvinum Ísraels ríkir ótti og uppnám í stjórnlausum ríkjum. Eftirleiknum vegna alls þessa er ekki lokið.

Ekki sér enn fyrir endann á átökunum sem hófust 7. október 2023 þegar Hamas-hryðjuverkamenn réðust inn í Ísrael frá Gaza og frömdu fjöldamorð og tóku gísla á sama tíma og flugskeytum var skotið á Ísrael. Hermenn Hamas höfðu kort sem sýndu öll ísraelsk samyrkjubú (kibbutz) og þorp í nágrenni Gaza, þeir réðust á íbúa þeirra og einnig þátttakendur í tónlistarhátíð á svæðinu.

Palestínumenn sem störfuðu í Ísrael gerðu kortin og þau sýndu hvar finna mátti leikskóla, hvar vopn voru geymd og til dæmis hvaða fjölskyldur áttu hunda. Eftir að nokkur þúsund Hamas-vígamenn höfðu ráðist á almenna borgara, nauðgað, drepið og rænt komu venjulegir borgarar frá Gaza á svæðið og létu að sér kveða á blóðvellinum. Tæplega 1.200 voru drepnir og um 250 manns frá 40 löndum tekin í gíslingu og af þeim er 101 enn ófundinn, lífs eða liðinn.

Screenshot-2024-10-07-at-14.14.18Myndin er tekin 7. október 2024. Fólk kom saman á þeim stað í Ísrael, nálægt Gaza,  þar sem NOVA-tónlistarhátíðin var haldin ári fyrr og Hamas-vígamenn réðust á hátíðargesti. Látinna var minnst.

Hamas lét þarna til skarar skríða í samræmi við megintilgang samtakanna: að afmá Ísraelsríki fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessa stefnu hafa Hamas-samtökin með stuðningi íranska klerkaveldisins og í skjóli þess. Íranska klerkaveldið stóð að baki Hamas-staðgenglum á Gaza og Hezbollah-hreyfingunni sem bjó um sig með tugi, ef ekki hundruð, þúsunda skotflauga í Suður-Líbanon við norðurlandamæri Ísraels. Fyrir sunnan Gaza hefur þriðji hryðjuverkahópur staðgengla Írana, Hútar, búið um sig í ríkinu Jemen og sendir þaðan flaugar á skotmörk í Ísrael.

Gaza er nú í rústum. Líbanon sem áður var friðsæl vin við Miðjarðarhaf er sundurtætt. Beirút, sem þótti fögur og ríkmannleg borg, er sundursprengd. Fólk sem þangað flúði undan grimmdarstjórn Bashars al-Assads, harðstjóra í Sýrlandi og skjólstæðings Írana og Rússa, telur sig nú óhultara í Sýrlandi. Jemen er ónýtt ríki, rústir, vígvöllur og skotpallur fyrir íranskar flaugar Húta gegn Ísrael og skipum á Rauðahafi.

Alls staðar þar sem Íranir hafa staðið að baki óvinum Ísraels ríkir ótti og uppnám í stjórnlausum ríkjum. Eftirleiknum vegna alls þessa er ekki lokið. Nú standa stjórnvöld Ísraels og Írans milliliðalaust hvort gegn öðru.

Eftir að Íranir skutu um 180 eldflaugum á Ísrael 2. október er beðið eftir svari Ísraela. Hryðjuverkin fyrir einu ári hafa leitt til svæðisbundinna átaka sem kunna að gjörbreyta stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs án þess að hróflað verði við Ísrael sem sýnt hefur ótvíræðan styrk og yfirburði.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var sagt frá því að efnt hefði verið til mótmæla í Háskóla Íslands af því að rektor hefði ekki viljað ræða við vini Palestínu í skólanum. Markmið þeirra er að spilla samskiptum Íslands og Ísraels á öllum sviðum og ganga erinda Hamas, staðgengla Írana, í útrýmingarstríði gegn gyðingum.

Að óhugnaðurinn fyrir botni Miðjarðarhafs hafi þau áhrif að grimmdarverk Hamas séu réttlætt af íslenskum háskólanemum með setuverkfalli á minningardegi er sorgleg áminning um nauðsyn þess að halda fram staðreyndum og draga ályktanir af þeim. Ein þessara staðreynda er að Ísraelar hafa styrkt stöðu sína og enn einu sinni staðfest rétt sinn til búsetu í eigin ríki. Það ber að virða.