Íslenskur her - varað við TikTok
Hér heyrist hvorki hósti né stuna í þessa veru um TikTok þótt alþingi hafi nýlega samþykkt uppfærslu á þjóðaröryggisstefnu, ekki síst með netöryggismál að leiðarljósi.
Hér tóku umræður um varnar- og öryggismál kipp um helgina vegna frétta af nýrri bók Arnórs Sigurjónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Íslenskur her, sem hann gaf út laugardaginn 4. mars.
Þótt bókin sé ekki löng er óvíst að margir sem sögðu álit sitt á henni hafi lesið hana. Bendir flest til þess að þeir taki mið af krónudæminu sem Arnór nefnir, það er að 66 milljarðar króna rynnu til varnarmála hér ef 2% regla NATO gilti hér, það er ef 2% af vergri landsframleiðslu okkar rynni til málaflokksins.
Tilgangur Arnórs er ekki síst að hvetja til umræðna um varnar- og öryggismál á öðrum grunni en tilfinningalegum. Í fræðum á sviði hernaðar liggja fyrir niðurstöður eins og í öðrum greinum og á þeim grunni taka stjórnmálamenn ákvarðanir þótt pólitískar deilur séu um þær eins og allt annað.
Arnór Sigurjónsson kynnir bók sína, Íslenskur her, í bókaverslun Eymundsson við Skólavörðustíg laugardaginn 4. mars.
Það liggur til dæmis skýrt fyrir núna að skynsamlegt hefði verið fyrir Vladimir Pútin að hugsa sig tvisvar um og leita sér betri vitneskju eða ráðgjafar áður en hann sendi her sinn inn Úkraínu með það að markmiði að leggja undir sig Kyív á innan við viku.
Nú rúmu ári síðar falla tugir þúsunda rússneskra hermanna í margra mánaða átökum um að ná undir sig 70.000 manna bænum Bakhmut í austurhluta Úkraínu. Er heiður rússneska hersins talinn liggja við að bærinn falli honum í hendur vegna táknræns frekar en hernaðarlegs gildis. Rússneskir nýliðar eru sendir með skóflur til að lemja á Úkraínumönnum, segir breska leyniþjónustan.
Víða um lönd er varað við notkun á kínverska smáforritinu TikTok. Center for Cybersikkerhed (CFCS), netöryggisstofnun Dana, mælti með því á dögunum að ríkisstarfsmenn hreinsuðu smáforritið af opinberum tækjum eins og farsímum, tölvum og skjábrettum. Kínverska fyrirtækið Bytedance á TikTok og er grunur um að það noti smáforritið til að hlera viðkomandi tæki og miðla upplýsingum áfram til kínverskra stjórnvalda.
Søren Gade, forseti danska þjóðþingsins, taldi ríka ástæðu til að fara að þessum tilmælum og bannaði TikTok hjá þingmönnum og starfsmönnum þingsins með þeim orðum að ekki ætti að hætta á að smáforritið yrði notað til njósna í þinghúsinu.
Hér heyrist hvorki hósti né stuna í þessa veru þótt alþingi hafi nýlega samþykkt uppfærslu á þjóðaröryggisstefnu, ekki síst með netöryggismál að leiðarljósi. Ef til vill telja ráðgjafar að öðru máli gegni um TikTok hér heldur en annars staðar, þeir hafi ekki neinar sannanir um að smáforritið sé notað til njósna. Þeir hafa ekki slíkar upplýsingar um kínverska farkerfið Huawei þótt lokað hafi verið á það í nágrannaríkjum.
Það þarf engan að undra þótt stjórnmálamenn sem láta slíkt viðgangast í netöryggismálum sjái enga ástæðu til að huga að hervörnum Íslands á annan hátt en undanfarin 30 ár þótt blóðugt stríð sé háð í Evrópu – stríð sem enginn veit hvernig eða hvenær lýkur.