18.6.2017 11:37

Íslenskar persónuupplýsingar þróunarefni vegna nýrra Evrópulaga

Íslenska fyrirtækið Dattaca Labs í samstarfi við breska tæknifyrirtækið digi.me um þróun nýrra tæknilausna vegna evrópskra persónuverndarlaga.

Miðvikudaginn 14. júní ræddi ég við Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, í vikulegum þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Síðan hef ég átt þess kost að spyrja nokkra sem starfa í íslensku viðskiptalífi að því hvort þeir átti sig á breytingunum sem eru í vændum á næsta ári þegar ný evrópsk persónuverndarlöggjöf tekur gildi.

Ég leyfi mér að draga þá óvísindalegu ályktun að menn leiði ekki mikið hugann að þessu eða þeirri staðreynd að fyrir rúmu ári hófst aðlögunartíminn að þessari breytingu og Persónuvernd hefur beitt sér fyrir kynningarfundum um málið sem að sögn Helgu voru vel sóttir.

Einn viðmælanda minna vakti athygli mína á frétt sem birtist á vefsíðu Viðskiptablaðsins 6. júní þar sem segir að íslenska fyrirtækið Dattaca Labs hafi hafið samstarf við breska tæknifyrirtækið digi.me um þróun nýrra tæknilausna sem gefi almenningi kost á að halda utan um eigin persónuupplýsingar og miðla þeim á sínum eigin forsendum.

Á vefsíðu Dattaca Labs er birt fréttatilkynning þar sem segir að Freyr Ketilsson og Bala Kamallakharan hafi 6. júní kynnt Dattaca Labs til sögunnar, og er fyrirtækinu á ensku lýst sem living lab sem starfi með opinberum stofnunum, innlendum og alþjóðlegum fyrirtækjum og frumkvöðlum til að auðvelda þróun á nýstárlegum lausnum á ýmsum sviðum þar á meðal heilbrigðismála, fjármála, smásölu, fjarskipta og upplýsingatækni.

Þessar lausnir miða greinilega að því að bjóða stofnunum og fyrirtækjum lausnir sem falla að nýju evrópsku löggjöfinni þar sem valdið yfir miðlun persónuupplýsinga er fært í hendir einstaklinga og þeir verða að veita upplýst samþykki sitt við því að upplýsingarnar séu notaðar á ákveðinn skilgreindan hátt, meðal annars á þeim sviðum sem eru nefnd hér að ofan. 

Í fréttatilkynningunni kemur fram að Dattaca Labs hafi nýlega átt samstarf við embætti landlæknis, digi.me og innlendu tæknifyrirtækin TM Software og Reon til að auðvelda þróun á nýju heilsu smáforriti (API) sem muni veita Íslendingum auðveldan aðgang að heilbrigðisupplýsingum. Þá segir: „Íslensk stjórnvöld eru fyrst í heiminum til að veita rafrænan aðgang að einstaklingsbundnum heilbrigðisupplýsingum fyrir borgara sína.“ Enska: Iceland is the first government in the world to make individual health data available in digital form for its citizens.

Á vef Viðskiptablaðsins er vitnað í fréttatilkynningu Dattaca Labs þar sem segir:

„Meðal markmiða Dattaca Labs er að skapa verðmæti í samskiptum milli fólks og þjónustuveitenda. Er það meðal annars gert með því að greina gögn og umbreyta í upplýsingar sem geta bætt þjónustu, aukið skilvirkni í fyrirtækjum, dregið úr kostnaði og bætt lífsgæði fólks. Í starfi Dattaca Labs er lykilatriði að einstaklingar stjórni persónupplýsingum sínum og veiti sjálfir leyfi til notkunar á þeim en með því skapist mikil tækifæri til verðmætasköpunar sem svo getur nýst öllu samfélaginu.“

Þarna er sem sagt lýst fyrirtæki sem ætlar að nota Ísland og Íslendinga sem rannsóknar- og þróunarvettvang til að finna lausnir sem falla að nýju evrópsku löggjöfinni um persónuvernd. Lausn sem finnst í fámennu, fjölbreyttu og hátæknivæddu samfélagi eins og er hér má auðveldlega færa yfir á margfalt stærri samfélög, Ísland verður einskonar „útungunarvél“ á þessu sviði takist áform Dattaca Labs í samvinnu við digi.me.

Sé farið inn á vefsíðu embættis landlæknis sést engin frétt þar um í hverju samstarf embættisins og þessara nýju fyrirtækja er fólgið eða hvaða upplýsingar um er að ræða þegar kemur að þróun smáforritsins um aðgang að heilbrigðisupplýsingum einstaklinga.