25.7.2024 10:09

Íslendingar í fremstu röð í Bayreuth

Andrúmsloftið á Bayreuth-hátíðinni og í kringum hana minnti mig á setningarhátíðir Ólympíuleikanna í Atlanta og Sydney. 

Hér á síðunum má sjá frásagnir mínar af ferðum á Bayreuth-hátíðina eða Wagner-hátíðina sem haldin hefur verið í smábænum Bayreuth í Bæjaralandi frá því að Richard Wagner reisti þar óperuhús. Fyrsta hátíðin hófst 16. ágúst 1876. Andrúmsloftið á Bayreuth-hátíðinni og í kringum hana minnti mig á setningarhátíðir Ólympíuleikanna í Atlanta og Sydney. Mikil eftirvænting er í loftinu og áhorfendur búa sig undir að njóta þess sem margir telja hápunkt óperuflutnings í samtímanum.

Bayreuth-hátíðin 2024 hefst í dag með sýningu á Tristan og Ísoldu. Þessi ópera Wagners var frumsýnd í München árið 1865, sex árum eftir að hann samdi hana. Hún var fyrst flutt í Bayreuth 1886. Síðan eru uppfærslur á óperunni þar fjölmargar og nú kemur ný til sögunnar undir leikstjórn Þorleifs Arnars Arnarssonar. Í henni syngur Ólafur Kjartan Sigurðarson sem er nú í röð fremstu söngvara á sviðinu í Bayreuth og eftirsóttur Wagner-söngvari um heim allan.

Hér birti ég á ensku skrá yfir þá sem nefndir eru á vefsíðu Bayreuth-hátíðarinnar í ár :

Stage director: Thorleifur Örn Arnarsson

Conductor: Semyon Bychkov

Tristan: Andreas Schager

Isolde Camilla Nylund

King Marke Günther Groissböck

Kurwenal Olafur Sigurdarson

Melot Birger Radde

Brangäne Christa Mayer (replacing Ekaterina Gubanova)

Steuermann Lawson Anderson

Junger Seemann Matthew Newlin

451743420_10229440352932376_7026920815876672925_nÁsgerður Ólafsdóttir birti þessa mynd á FB-síðu sinni fyrir 4 dögum eftir lokaæfingu á Tristan og Ísold í Bayreuth. Þarna eru tveir lykilmenn sýningarinnar með foreldrum sínum: Til vinstri: Ólafur Kjartan Sigurðarson, Sigurður Rúnar Jónsson og Ásgerður Ólafsdóttir. Til hægri: Þorleifur Örn Arnarsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Arnar Jónsson.

Daniel Barenboim stjórnaði alls 161 sýningu í Bayreuth á níunda og tíunda áratugnum (1981-1999). Hann sagði um Tristan og Ísoldu að hún væri ekki ópera um ást heldur um dauða, óttann við dauðann. Það væri aflvaki óperunnar. Ekkert væri lýðræðislegra en dauðinn.

Eftir Wagner sjálfum er haft að hann óttaðist að óperan yrði bönnuð nema hún yrði afskræmd í lélegum flutningi, aðeins miðlungs flutningur gæti bjargað sér. Yrði flutningurinn frábær hlyti hann að umturna geðheilsu fólks – hann gæti ekki ímyndað sér annað.

Kurwenal sem Ólafur Kjartan syngur er náinn vinur Tristans og siglir með honum í ferðinni örlagaríku til Cornwall þegar hann fer með Ísold þangað til að giftast frænda Tristans, Marke konungi. Allt hefur það annan enda og deyr Kurwenal við hlið Tristans undir lok fimm tíma langrar óperunnar sem sýnd er með tveimur hléum.

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með stórviðburðinum í Bayreuth í dag þar sem tveir Íslendingar eru í fremstu röð geta keypt aðgang að Stage+ fyrir eina evru og horft á beina útsendingu, sem hefst kl. 14 á íslenskum tíma. Opnið þessa slóð: https://www.stage-plus.com/summer.