18.4.2021 10:38

Ísland á grænum lista Breta

Ísland er þar í hópi átta ríkja auk: Ástralíu, Bandaríkjanna, Gíbraltar, Írlands, Ísraels, Möltu og Nýja-Sjálands.

Bretum er bannað að ferðast til útlanda að tilefnislausu að viðlögðum háum sektum til 30. júní. Áform ríkisstjórnarinnar eru þó að endurskoða þessa reglu 17. maí og gefa þá hugsanlega heimild til ferðalaga til sérvalinna, öruggra ríkja á svonefndum grænum lista.

Á vefsíðunni The Telegraph er í dag (18. apríl) birt mat breskra ferðafræðinga á því hvaða lönd verði líklega á græna listanum 17. maí. Ísland er þar í hópi átta ríkja auk: Ástralíu, Bandaríkjanna, Gíbraltar, Írlands, Ísraels, Möltu og Nýja-Sjálands.

Vakin er athygli á að næstum öll lönd í Evrópu séu annaðhvort á gula listanum, Bretar sem koma þaðan þurfa að dvelja í 10 daga heimasóttkví, eða á rauða listanum en við heimkomu þaðan verða Bretar að dveljast í sóttkví á hóteli og greiða 1.750 pund á mann (307 þúsund ísl. krónur). Hér greiðir íslenska ríkið fyrir dvöl aðkomumanna á sóttkvíarhóteli.

Samkvæmt þessu mati eru rauðu ríkin: Frakkland, Tyrkland, Holland, Króatía, Svíþjóð, Belgía og Lúxemborg. Þó er talið ólíklegt að þau verði sett á rauða listann með hliðsjón af pólitískum og efnahagslegum ástæðum.

Vinsæl ferðamannalönd eins og Spánn, Grikkland, Ítalía og Kýpur verða að líkindum sett á gula listann en hugsanlega flokkuð sem græn við endurskoðun hans sem ráðgerð er 28. júní. Hugsanlegt er talið að spænskar og grískar eyjar verði metnar hættuminni en meginlönd Spánar og Grikklands eins og í fyrra.

Easid-407310-media-id-28810Í matsskýrslunni segir að öruggast sé að Gíbraltar lendi á græna listanum. Þar sé ekki vitað um neitt smit og allir íbúarnir hafi verið bólusettir. Næstöruggast sé Ísrael, þar hafi næstum allir landsmenn verið bólusettir.

Á eftir Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Íslandi og Ísrael koma Bandaríkin þótt í skýrslunni segi að líklega verði ekki unnt að setja öll ríkin þar í sama flokk nema smit minnki mikið á verstu stöðunum.

Bresku matsmennirnir segja að það kunni að ráðast af hraða bólusetninga hvort gul ríki verði metin græn. Við það kunni Malta að bætast á græna listann og einnig Sameinuðu furstadæmin, vegna þeirra verði þó að gæta varúðar, um skiptiflugvelli þar ferðist allra þjóða menn sem kunni að bera óþekkt afbrigði veirunnar.

Hér reka sumir upp hræðsluóp þegar minnst var á litakóða. Látið er eins og einhver sjálfvirkni verði hér á landamærum yrði stuðst við þá. Frá upphafi blasti þó við að svo yrði ekki, hér yrði framkvæmdinni við landamærin hagað að ákvörðun íslenskra yfirvalda.

Varla dettur nokkrum hér í hug að banna að Bretar eða aðrar þjóðir setji Ísland á grænan lista hjá sér? Við ákveðum svo hvaða kröfur eru gerðar til Breta sem hingað koma eftir að yfirvöld þeirra hafa gefið þeim þetta græna ljós.

Besta leiðin til að auðvelda móttöku ferðamanna og annarra hingað er og hefur verið að tryggja nægilegt bóluefni og sprauta því í sem flesta á sem skemmstum tíma. Við eigum samleið með EES-löndunum og nú boða ráðamenn ESB nýja tíma í bólusetningum, þeir fari jafnvel fram úr Bretum sem standa sig best fjölmennra Evrópuríkja.