13.1.2024 11:25

ISIS-liði rekinn frá Akureyri

Ríki íslams, ISIS, ber ábyrgð á fjölda grimmdarverka. Fjöldaaftökur hafa verið framdar í nafni samtakanna, nauðganir og eyðilegging á menningarverðmætum.

Að sögn embættis ríkislögreglustjóra voru þrír karlmenn handteknir í lögregluaðgerðum á Akureyri að morgni föstudagsins 12. janúar. Tveimur þeirra var sleppt en sá þriðji var fluttur til Grikklands ásamt eiginkonu sinni og sex börnum. Talið er að hann sé félagi í ISIS-hryðjuverkasamtökunum, Ríki íslams.

Brottflutti maðurinn kom með fjölskyldu sína hingað til lands í september 2023 og sótti um alþjóðlega vernd. Fjölskyldunni var synjað á þeim forsendum að hún hefði fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Aðgerðir lögreglu hér vegna mannsins hófust í nóvember í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld, þar á meðal Europol, segir í tilkynningu ríkislögreglustjóra.

ISIS er hópur Salafi, öfgasinnaðra múslíma, sem fylgir strangri túlkun á lögum múslíma. Lokamarkmið hópsins er að koma á fót kalífaríki, íslamskri ríkisstjórn fyrir múslímska heiminn, undir stjórn kalífa, veraldlegs valdsmanns sem talinn er þiggja vald sitt frá Allah.

Margir hafa látið sig dreyma um að endurreisa kalífadæmið eftir að það leið undir lok árið 1924. Leiðtogi ISIS, Ríki íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, lýsti sjálfan sig kalífa árið 2014. Hann hafði ekki erindi sem erfiði.Fáni Ríkis íslams, ISIS.

Ríki íslams, ISIS, ber ábyrgð á fjölda grimmdarverka. Fjöldaaftökur hafa verið framdar í nafni samtakanna, nauðganir og eyðilegging á menningarverðmætum.

516900Akureyrarflugvöllur (mbl.is)

Undir forystu Bandaríkjamanna hefur verið unnið að því að uppræta Ríki íslams og á árinu 2017 voru samtökin hrakin frá Írak þar sem þau höfðu meginaðsetur. Abu Bakr al-Baghdadi var drepinn í árás Bandaríkjahers árið 2019. Liðsmenn samtakanna láta enn að sér kveða á nokkrum stöðum í Sýrlandi og Írak en standa mun verr að vígi en áður.

Eftir að Hamas-hryðjuverkamenn réðust inn í Ísrael 7. október 2023 og drápu konur og börn er oft talað um Hamas og Ríki íslams í sömu andrá vegna þess að liðsmenn beggja samtakanna svífast einskis fyrir málstað sinn.

Sérfræðingar í málefnum múslíma leggja hins vegar áherslu á að um tvenn ólík samtök sé að ræða vegna þess að hugmyndafræði þeirra sé ólík.

Hamas berst fyrir því í nafni Palestínumanna að uppræta Ísraelsríki og hrekja Ísraela á brott eða drepa þá. Markmið Hamas eru staðbundin „frelsun allrar Palestínu“ úr höndum þeirra sem samtökin kalla „zíóníska óvininn“.

Ríki íslam vill ná til allra múslíma og sameina þá undir einum kalífa í allsherjar umma, samfélagi múslíma í íslömsku ríki sem hafið sé yfir allan þjóðernislegan ágreining. Félagar í Ríki íslams líta líka á Hamas-liða sem trúvillinga vegna tengsla þeirra við síja-múslíma í Íran.

Samhliða því sem fréttin berst um brottvísun ISIS-liðans frá Akureyri segir danska lögreglan frá aðgerð sinni gegn Hamas-liðum í Danmörku. Frá Þýskalandi og Hollandi berast einnig fréttir af auknum viðbúnaði lögreglu til að hindra Hamas-hryðjuverk í löndunum.

Hættumat verður að herða á landamærum Íslands samhliða aukinni landamæravörslu. Nýta verður íslenskar lagaheimildir og sjá til þess að flugfélög sem hér stunda viðskipti fari að lögmætum kröfum um miðlun upplýsinga um farþega sína.